Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað komu sína í Fjarðabyggð í næstu viku. Þetta kemur fram í pistli sem Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ritar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Þar segir að ljóst sé að tjónið sé mikið hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins. Einna mest virðist tjónið vera á Reyðarfirði og mun taka einhvern tíma að átta sig á umfangi þess, skrifar Jón Björn.

Katrín hafði samband við Jón og bað fyrir góðar kveðjur til allra íbúa Fjarðabyggðar og boðaði jafnframt komu sína í næstu viku til að skoða aðstæður.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, kom á þriðjudag og fundaði með kjörnum fulltrúum.

Næstu dagar og vikur fara í hreinsunarstarf og uppbyggingu á því sem skemmdist í veðrinu. „Ég veit að við verðum ekki í vandræðum með að leysa þetta verkefni, íbúar Fjarðabyggðar munu saman ljúka þessu með sóma,“ skrifar bæjarstjórinn.