„Ríkið mun ekki áfrýja þessari niðurstöðu Landsréttar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um dóma Landsréttar í bótamálum Kristjáns Viðars Júlíussonar og Guðjóns Skarphéðinssonar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Katrín segir lögfræðinga ríkisins eiga eftir að fara heildstætt yfir málið, en henni sýnist dómarnir snúast að mestu leyti um hvernig meta eigi miska til fjár við fordæmalausar aðstæður.

„Við fögnum því að dómur liggi fyrir en höfum auðvitað lagt áherslu á að engar fjárhæðir gætu bætt þann miska sem viðkomandi urðu fyrir, en gerðum okkar besta við að móta þær fjárhæðir. Nú hefur Landsréttur kveðið upp dóm og það liggur fyrir að bætur eru hærri en það sem framkvæmdavaldið taldi sér fært að bjóða, en fjárhæðirnar í þessum nýju dómum eru hæstu miskabætur sem dæmdar hafa verið af íslenskum dómstólum,“ segir Katrín. Hún fagnar því að niðurstaða dómstóla liggi nú fyrir um hvað geti talist sanngjarnar bótafjárhæðir í málinu.

„Það er mjög gott að fá þetta dómsorð og vonandi að það verði hluti af lúkningu í þessu erfiða máli,“ segir Katrín.

„Það er mjög gott að fá þetta dómsorð og vonandi að það verði hluti af lúkningu í þessu erfiða máli.“

Með dómum Landsréttar í gær voru Kristjáni Viðari dæmdar 350 milljónir í bætur og Guðjóni Skarphéðinssyni 260 milljónir. Í báðum tilvikum koma til frádráttar þær bætur sem þeim höfðu þegar verið greiddar vegna málsins.

Lögmenn Guðjóns og Kristjáns Viðars segjast sáttir við þessar málalyktir og gera heldur ekki ráð fyrir áfrýjun til Hæstaréttar.

Arnar Þór Stefánsson var hóflega bjartsýnn fyrir dómsuppsögu í gær. Hann segir dóminn sigur fyrir réttarríkið.
Fréttablaðið/Aðalheiður

„Það má segja að réttarríkið hafi staðist þessa prófraun með því að dæma þarna ríflegar bætur fyrir þann miska sem minn umbjóðandi varð fyrir á sínum tíma og í rauninni alla sína ævi síðan, en hann lést í vor,“ segir Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars.

„Það eru stór orð notuð í forsendum dómsins um framgöngu ríkisins gagnvart þessu fólki og ég er ánægður með að það sé viðurkennt í þessum dómi.“

Byggt á ákvæði stjórnarskrár um pyndingar

Í dómum Landsréttar er meðal annars byggt á því að tímalengd einangrunar þeirra beggja og aðstæður í Síðumúlafangelsi hafi falið í sér ‘vanvirðandi meðferð‘ í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Fátítt er að kveðið sé svo fast að orði í íslenskum dómum, en umrædd ákvæði taka til pyndinga, ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar.

Áttu enga sök á því hvernig fór

Þá féllst Landsréttur ekki á að lækka ætti bætur til þeirra á grundvelli eigin sakar, en í dómunum segir að ríkið hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir því að háttsemi þeirra við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi hafi leitt til sakfellingar þeirra í málinu á sínum tíma eða að þeir hafi sjálfir valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakröfurnar eru reistar á. Því verði bótakröfur þeirra ekki lækkaðar á grundvelli eigin sakar.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, segir dóminn bæði sögulegan og fordæmisgefandi.

Ragnar var að vonum mjög ánægður með niðurstöðu Landsréttar.
Fréttablaðið/Aðalheiður

„Eitt af því sem er gagnlegt við svona dóma er að þeir eiga að hafa áhrif á hegðan embættismanna, bæði rannsóknarmanna, lögreglu og dómara, þegar svona mál koma upp,“ útskýrir Ragnar.

Landsréttur málar dökka mynd af áhrifum málsins

Tekið er undir allar helstu málsástæður Kristjáns Viðars og Guðjóns í dómum Landsréttar. Viðurkennt er hve þungbær málin voru þeim, ekki aðeins meðan á einangrunarvistinni stóð heldur einnig sakfelling þeirra beggja og áhrif hennar á líf þeirra í kjölfarið.

Dómarnir tveir eru nánast samhljóða um allt sem við á í málum beggja. Í dómi Kristjáns Viðars segir meðal annars:

„Ljóst er að sakfellingardómur þar sem Kristján Viðar var dæmdur fyrir tvö manndráp og sú opinbera umræða sem málið hlaut, litaði líf hans allt frá því að hann stóð á tvítugu þar til hann var kominn á sjötugsaldur. Af öllu framangreindu er ljóst að málið varpaði miklum skugga á líf Kristjáns Viðars. Hefur hann þannig til viðbótar við miska vegna frelsissviptingar þurft að þola umtalsvert miskatjón vegna sakfellingarinnar sjálfrar, sem reist var á rannsókn og málsmeðferð sem ekki var að öllu leyti í samræmi við þágildandi lög um meðferð opinberra mála."

Máli Tryggva Rúnars áfrýjað

„Þetta eru sár vonbrigði. Í niðurstöðunni felst að ríkið hafi fjárhagslegan ábóta af andláti manns, sem það hefur orðið uppvíst að því að pynta,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður aðstandenda Tryggva Rúnars Leifssonar.

Páll Rúnar M. Kristjánsson varð fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðu Landsréttar í máli Tryggva Rúnars.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Ríkið var sýknað af bótakröfu Tryggva Rúnars, á þeim forsendum að krafa um miskabætur erfist ekki til dánarbús nema að mál sé höfðað um kröfuna áður en viðkomandi lést, líkt og í tilviki Kristjáns Viðars.

Páll segir fá fordæmi um slík miskabótamál og engin fordæmi um bótaskyldu út af rangri sakfellingu og erfðum. „Þannig að þetta mál er einstakt að þessu leyti. Frá upphafi var lagt upp með að taka málið alla leið og í ljósi þess geri ég ráð fyrir að málinu verði áfrýjað.“

Enn á eftir að kveða upp dóm í máli Erlu Bolladóttur sem freistar þess enn að fá sinn þátt málsins endurupptekinn. Þá er bótamál tveggja afkomenda Sævars Ciesielski enn til meðferðar fyrir dómi.