„Þetta tekur bara tíma,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var á leið inn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu til fundar við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins.

Katrín fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í morgun og gerði honum grein fyrir stöðunni.

Líkt og greint var frá í blaðinu í dag er lögð áhersla á að finna flöt í ágreiningsmálum í stjórnarmyndunarviðræðum. Miklar líkur séu taldar á því að Katrín verði áfram forsætisráðherra en stokkað verði upp í ríkisstjórninni að öðru leyti.

„Það er ekkert komið á þetta stig,“ sagði Bjarni þegar Vísir spurði hann út í fréttir af viðræðunum. „Við erum bara að ræða það sem reyndist ríkisstjórnarflokknum erfitt á síðasta kjörtímabili. Svo erum við að stilla saman strengi við þá spennandi framtíð sem við teljum að sé til staðar fyrir okkur Íslendinga og passa að við grípum þau tækifæri sem okkur gefst á kjörtímabilinu.“

Katrín sagði að það væri ekki byrjað að ræða hvernig verkum yrði skipt innan ríkisstjórnarinnar. „En við erum að velta fyrir okkur ákveðnum breytingum og tilflutningi verkefna og annað slíkt.“

Bjarni er ekki viss hvað stjórnarmyndunarviðræðurnar muni taka langan tíma.

„Ég bara þori ekki alveg að segja það. Ég myndi halda að það þyrfti að koma skriður á þetta í næstu viku varðandi það að fara út í fleiri útfærslur. Við erum enn að vinna í rammanum okkar í milli.“

Aðspurður hvort það sé bókað að þessir þrír flokkar verði áfram í ríkisstjórnarsamstarfi sagði Bjarni:

„Mér líður vel í þessu samtali, það er ekkert sem ég hef áhyggjur af. En maður veit ekki fyrr en við höfum farið ofan í saumana á málum og það er það sem bíður okkar í dag og kannski nokkra daga.“