„Yfirstandandi kjörtímabili lýkur 28. október 2021 og það hefur engin ákvörðun verið tekin um að boða til kosninga fyrr,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún útilokar þó ekki að boðað verði til kosninga eitthvað fyrr.

Bjarni Benediktsson hefur lýst þeirri skoðun sinni að klára eigi fullt kjörtímabil og kjósa í haust en formenn flestra stjórnarandstöðuflokkanna leggja áherslu á vorkosningar og vísa bæði til hefðar og að einnig þurfi ný ríkisstjórn að hafa nægan tíma til undirbúnings fjármálastefnu og fyrstu fjárlaga.

„Ég mun boða formenn allra flokka til fundar á næstunni til að fara yfir þessi sjónarmið, áður en við tökum ákvörðun,“ segir Katrín.

Þótt enn liggi ekkert fyrir um vor - eða haustkosningar voru flokkarnir byrjaðir að huga að undirbúningi strax í byrjun árs og fjöldi landsþinga var áformaður í vor. Svo kom heimsfaraldur sem setti strik í reikninginn.

Viðreisn, Miðflokkurinn og Sósíalistar hafa frestað sínum fundum fram á haustið en Framsóknarflokkurinn frestaði sínum fundi um heilt ár.