Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að bjóða sig aftur fram til borgarstjórnar. Í viðtali við Morgunblaðið í dag kemur fram að Katrín muni hefja störf hjá fyrirtækinu Dohop á vormánuðunum.
Það er geiri sem er henni ekki óþekktur því áður starfaði Katrín hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP, eða frá árinu 2009 og þar til hún tók sæti í borgarstjórn árið 2018.
Katrín segir í viðtalinu að hún styðji Hildi Björnsdóttur, flokksfélaga sinn, til forystu í kosningunum í vor. Hún segist treysta henni vel til að leiða flokkinn og til að koma honum í meirihluta.
Katrín segir í samtali við Morgunblaðið að hún sé spennt að hefja störf hjá Dohop og að hún hafi fylgst með fyrirtækinu frá upphafi þess.
Hún fer einnig yfir þau verk sem hún er stoltust af á ferli sínum sem borgarfulltrúi og nefnir þar sem dæmi hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og forritunarkennslu barna.