Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að hún ætlaði ekki að fara í stjórnarmyndunarviðræður við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Logi vitnaði í orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að verkefni næsta kjörtímabils yrði að stórbæta heilbrigðiskerfið og laga rekstrargrunn hjúkrunarheimila. „Þetta er sami ráðherra og sagðist í byrjun kjörtímabilsins fyrir fjórum árum ætla að laga heilbirgðiskerfið.

„Það hefur legið fyrir allt kjörtímabilið. Biðlistar hafa lengst í kerfinu. Öryggi kvenna hefur raksast vegna stórfellds klúðurs við leghálsskimanir. Á síðustu dögum hafa 965 læknar sent neyðarkall til stjórnvalda og mótmæla langdregnu sinnuleysi. Varað hefur verið við því að það stefni í neyðarástand í fæðingarhjálp í sumar.“

„Nú ætlar VG að fara inn í kosningar með loforð um það sem þau ætluðu sér síðustu fjögur ár. Þau ætla að gera það með sama stjórnarmynstri þrátt fyrir að stjórnarliðar skjóti nú föstum skotum að heilbrigðisráðherra og segja að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki tekið þátt í ríkisstjórn sem heldur áfram stefnu heilbrigðisráðherra.

„Hvernig ætlar ráðherra að gera þetta í samstarfi við flokk sem er algjörlega á öndverðum meiði um það sem þarf að gera í þessum mikilvæga málaflokki?“

Útgjöld hafi aukist

Katrín sagði að hún þyrfti að byrja á að leiðrétta Loga. „Staðreyndin er sú að útgjöldin til heilbrigðismála hafa verið aukin á hverju ári á þessu kjörtímabili. Staðreyndin er sú að þau hafa ekki aðeins hækkað í krónutölu heldur einnig hlutfalli af vergri landsframleiðslu,“ sagði Katrín.

„Núverandi heilbrigðisráðherra hefur gert það sem margir hafa sagst ætla að gera, það er taka raunveruleg skref til að gera heilsugæsluna að fyrsta stað.“

Þá hafi kostnaður sjúklinga lækkað, bæði eru það mál sem hafi verið rætt í mörg kjörtímabil án aðgerða. „Eru mörg verkefni óunnin í heilbrigðismálum? Já. Þetta er risastór málaflokkur og á bara eftir að stækka,“ sagði Katrín. „Hér er ekki hægt að koma og láta eins og það hafi verið kyrrstaða í heilbrigðismálum.“

Ætlar ekki fara þangað

Logi sagði Katrínu ekki svara spurningunni, hún hafi snúið að hvernig það muni ganga að vinna með Sjálfstæðisflokknum, ætti það allt eins við um umhverfismál sem og heilbrigðismál.

„Telur hún ekki vænlegra til árangurs að reyna þá aðra aðferðafræði og reyna að vinna með flokkum sem eru henni sama sinnis?“

Katrín sagðist ekki ætla að fara þangað. „Háttvirtur þingmaður vill kannski, gjarnan fá mig í stjórnarmyndunarviðræður í þessum óundirbúnu fyrirspurnum þá ætla ég ekki að fara þangað þó það kunni að vera gott sjónvarpsefni.“ Stóra málið væri að Svandís hefði náð árangri í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili.