Um hvítasunnuhelgina beindist kastljós fjölmiðla um allan heim að litla Íslandi svo um munaði. Bandaríkin fengu eldgosið beint í æð frá 60 mínútum, Eurovision fór mjúkum höndum um land og keppendur, Asía fylgdist spennt með rafíþróttamóti í Laugardalshöll og Rúrik Gíslason og Natan Dagur Benediktsson juku hróður landsins í raunveruleikasjónvarpi í Þýskalandi annars vegar og Noregi hins vegar.

Athyglina sem landið fékk um helgina er varla hægt að meta í krónum að sögn Hildar Bæringsdóttur, verkefnastjóra hjá Íslandsstofu, sem hefur haft rafíþróttamótið á sinni könnu undanfarna mánuði.

Fréttaskýringaþátturinn 60 minutes fjallaði um eldsumbrotin í Geldingadölum á sunnudag sem um 10 milljónir manna horfðu á samkvæmt fyrstu mælingum. Fréttamaðurinn Bill Whitaker gerði gosinu góð skil og vildi eðlilega helst ekki fara frá sjónarspilinu.

Daði og Gagnamagnið vöktu eftirtekt

Þá vakti frammistaða Daða og Gagnamagnsins í Eurovision eftirtekt enda var brotið blað í sögu keppninnar þar sem Daði tók í rauninni varla þátt enda í sóttkví á hótelherbergi sínu. Fjölmiðlar um alla Evrópu fjölluðu um Gagnamagnið og landið af miklum myndarskap. Um 180 til 200 milljónir manna hafa horft á Eurovision undanfarin ár.

Rúrik Gíslason komst í úrslit á Lets Dance í Þýskalandi með mjöðmunum og Natan Dagur Benediktsson hefur sungið sig inn í úrslitin í The Voice í Noregi.

Elgosamyndbönd hafa tröllriðið Instagram

Fyrir utan alla samfélagsmiðlana þar sem eldgosamyndbönd frá téðum Geldingatölum hafa tröllriðið Instagram, Twitter og Facebook undanfarnar vikur. Þá komu Íslandsvinirnir, kvikmyndastjarnan Orlando Bloom og framleiðandinn Mark Burnett, sem á hugmyndina að Survivor, The Shark Tank og The Apprentice, í ferð sem þeir hafa gert góð skil á samfélagsmiðlum. Þeir skíðuðu niður brekkur á Norðurlandi og skelltu sér í hella­skoðun í Lofthelli í Mývatnssveit.

Þó að League of Legends sé lokið eru augu þeirra sem fylgjast með rafíþróttum ekki farin af Íslandi því um leið og mótið kláraðist hófst nýtt mót sem kallast Valorant. „Fyrir utan ásýndina sem við fengum með að halda mótið hér á landi vorum við með tvær auglýsingar í úrslitaleiknum í League of Legends. Annars vegar Work in Iceland í ensku útsendingunni en einnig Visit Iceland í þeirri asísku. Ég vil meina að þetta sé eins og að vera með Justin Bieber-tónleika á hverjum degi í fimm vikur – en þó án áhorfenda,“ segir Hildur.