Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um slys við Bústaðaveg á níunda tímanum í gærkvöldi en þar hafði ökumaður keyrt á vegrið með þeim afleiðingum að bíllinn kastaðist yfir á rangan vegarhelming og framan á annan bíl.
Að sögn lögreglu fór ökumaðurinn af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu. Hann var grunaður um ölvunarakstur og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Bíll tjónþola er mikið skemmdur og var fluttur af vettvangi. Tjónþoli sagðist ætla að leita til Bráðadeildar til aðhlynningar vegna eymsla.
Elti ökumann sem keyrði á
Þá var einnig tilkynnt um umferðarslys í Árbæ þar sem bakkað var á annan bíl en ökumaðurinn stakk af í kjölfarið. Tjónþoli elti þó manninn í Mosfellsbæ þar sem lögregla kom á vettvang.
Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Brotist inn í 11 geymslur
Meðal annarra verkefna hjá lögreglunni voru innbrot en tilkynnt var um innbrot í tvö fjölbýlishús í Hafnarfirði milli klukkan 17 og 20 í gær. Brotist var inn í ellefu geymslur í heildina, sjö í fyrri tilkynningu og fjórar í seinni.
Í báðum tilfellum voru hurðir spenntar upp og brotnar. Ekki er vitað hverju var stolið úr fyrri tilkynningu en í seinni tilkynningu var til að mynda rafmagnshlaupahjóli og vefmyndavél stolið.
Braut brunaboða í Ráðhúsinu
Þá fékk lögregla einnig tilkynningu um mann í annarlegu ástandi sem var búinn að brjóta brunaboða í Ráðhúsinu á fimmta tímanum í nótt en maðurinn hafði einnig tæmt úr slökkvitækjum í bílageymslu.
Maðurinn var meiddur á hendi þegar lögreglu bar að garði og var hann fluttur á Bráðadeild til aðhlynningar. Að sögn lögreglu verður hann mögulega vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.