Sam­starfs­örðug­leikar hafa verið á milli Guð­mundar Gunnars­sonar, fyrr­verandi bæjar­stjóra Ísa­fjarðar­bæjar, og Daníels Jakobs­sonar, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins, undan­farna mánuði. Bæjar­full­trúar sem Frétta­blaðið hefur rætt við eru sann­færðir um að upp­sögn Guð­mundar eigi sér lengri að­draganda en greint var frá í frétta­til­kynningu bæjarins.

Töldu Guð­mund ekki verða lengi í starfi

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins á Guð­mundi, sem var ráðinn í embætti bæjarstjóra eftir síðustu kosningar, og Daníel að hafa lent saman eftir bæjar­stjórnar­fund og að Arna Lára Jóns­dóttir, bæjarfulltrúi Í-listans, hafi þurft að ganga á milli þeirra. Að­spurð vildi Arna ekki stað­festa að svo hefði verið, en að vissu­lega hafi kastast í kekki hjá Guðmundi og Daníel. Þá herma heimildir blaðsins að samstarf Guðmundar við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafi verið stirt síðan Daníel Jakobsson sneri til baka úr leyfi frá bæjarstjórn, en Sjálfstæðisflokkurinn situr í meirihluta með Framsóknarflokknum.

Daníel er fyrr­verandi bæjar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar og var bæjar­stjórnar­efni Sjálf­stæðis­flokksins í síðustu kosningum. Heimildar­menn Frétta­blaðsins segja að ó­sættið megi rekja að mestu til þess að Daníel hafi ekki talið að Guð­mundur réði við starfið og hafi sjálfur horft löngunar­augum á bæjar­stjóra­stólinn. Fram­sóknar­menn vildu ráða ó­pólitískan bæjar­stjóra og fór svo að Bol­víkingurinn Guð­mundur var ráðinn. Ekki náðist í Daníel við vinnslu fréttarinnar.

Þeir sem þekkja vel til í pólitíkinni fyrir vestan hafa haft á orði að Guð­mundur yrði ekki lang­lífur í starfi þar sem Sjálf­stæðis­menn hafi haft horn í síðu hans. Þá mun Guð­mundi hafa þótt Daníel „anda ofan í háls­málið á sér.“ Endan­lega hafi síðan soðið upp úr á milli Guð­mundar og Daníels í síðustu viku. Hafi Guð­mundur ekki mætt á bæjar­stjórnar­fund eftir það.

Allt eigi sér að­draganda

Þegar Fréttablaðið spurði Guðmund fyrr í dag hvort að tengsl væru á milli snjóflóðanna á Flateyri og uppsagnar hans sagðist hann ekki geta svarað því öðruvísi en svo að áherslur hans hafi ekki verið þær sömu og bæjarstjórnar í nokkurn tíma. Vísaði hann að öðru leyti á Kristján Þór Kristjánsson, forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Fréttablaðið hefur ekki náð tali af Kristjáni en hann sagði í sam­tali við Vísi fyrr í dag að engin tenging væri á milli upp­sagnarinnar og snjó­flóðanna á Flat­eyri.

Í samtali við Fréttablaðið vildi Guðmundur ekki tjá sig um það hvort að ósætti hefði verið á milli hans og Daníels. „Ég tjái mig ekkert um það,“ sagði Guðmundur og bætti við að samkomulag væri á milli aðila um að tjá sig ekki um starfslokin að öðru leyti en því sem fram hefði komið í tilkynningunni.

Aðspurður um það hversu langur aðdragandi hefði verið að starfslokunum sagði hann að menn hefðu oft mismunandi sýn á það hvað aðdragandi væri og hvað væri langur tími. „Að þessi niðurstaða yrði ofan á, að það væri bil sem við sæum ekki fram á að geta brúað, það hefur bara verið á síðustu dögum.“ Allir hlutir eigi sér þó einhvern aðdraganda.

Minnihluti bæjarstjórnar fékk ekki að vita ástæðu þess að Guðmundi var sagt upp.
Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson

Minni­hlutinn veit ekki á­stæðuna

Full­trúum minni­hlutans sem Frétta­blaðið hefur rætt við segja að al­menn á­nægja hafi verið með störf Guð­mundar sem bæjar­stjóra og að fram­ganga hans í kjöl­far snjó­flóðanna á Flat­eyri hafi verið til fyrir­myndar. Þeir hafa ekki fengið upp­lýsingar um hvað felist í þeirri „ó­líku sýn á verk­efni á vett­vangi sveitar­fé­lagsins“ sem sögð er á­stæða upp­sagnarinnar í til­kynningu til fjöl­miðla.

„Þetta er sér­stakur tíma­punktur,“ segir Arna Lára, sem situr í minnihluta fyrir Ísafjarðarlistann. Hún stað­festir að minni­hlutinn hafi ekki verið með í ráðum og að bæjar­full­trúar hafi einungis fengið að vita um helgina að til stæði að segja Guð­mundi upp. „Ég er sann­færð um að þetta hefði farið öðru­vísi ef við hefðum fengið að vera með í ráðum.“ Bæjar­full­trúar sem Frétta­blaðið hefur rætt við segja að al­menn á­nægja sé með störf og við­brögð Guð­mundar í kjöl­far snjó­flóðanna.

Hvað tekur nú við?

„Ég ætla að skella mér í sund í dag og allar líkur á að ég fari svo í fjall­göngu síðar í dag. Að vera bæjar­stjóri á Ísa­firði er skemmti­legasta og um leið eitt mest krefjandi verk­efni sem ég hef tekið að mér. Síðan ætla ég að fjár­festa í trommu­setti. Mig hefur alltaf dreymt um að eiga trommu­sett þó svo að ég kunni ekkert á trommur. Kannski var þetta bara blessun, þar sem ég get nú látið þann draum rætast.“