Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði í gær af­skipti af manni sem var tekinn við að kasta þvagi af sér á hús héraðs­dóms Reykja­víkur á þriðja tímanum í nótt. Kemur þetta meðal annars fram í dag­bók lög­reglu.

Þá segir í dag­bókinni að maður hafi verið hand­tekinn í hverfi 101, þegar hann reyndi að flýja lög­reglu eftir um­ferða­ó­happ. Maðurinn hafði ekið bif­reið undir á­hrifum á­fengis og fíkni­efna og var hann vistaður í fanga­geymslu lög­reglu.

Einnig var til­kynnt um þjófnað í verslun í hverfi 101, en þar hafði maður stolið úlpu úr versluninni að verð­mæti 130.000 kr.

Í Hafnar­firði stöðvaði lög­reglan alls 65 öku­tæki í nótt, en þar af voru tveir öku­menn undir refsi­mörkum og gert að hætta akstri. Þá var einn kærður fyrir ölvunar­akstur, akstur án gildra öku­réttinda og fyrir að falsa öku­skír­teini.

Þá var maður ofur­ölvi á veitinga­húsi í Hafnar­firði þar sem dyra­verðir þurftu að hafa af­skipti af honum og hafa í haldi þangað til lög­regla mætti á vett­vang. Hann var vistaður í fanga­geymslu að sökum á­stands.

Lög­regla hafði af­skipti af öku­manni í Kópa­vogi í nótt þar sem hann var grunaður um akstur undir á­hrifum fíkni­efna. Öku­maðurinn var sviptur öku­réttindum.

Í Grafar­vogi var öku­maður stöðvaður og var mikil fíkni­efna­lykt af honum. Lög­reglu­menn fundu fíkni­efni í bif­reið öku­manns, en hann var ekki undir á­hrifum. Fíkni­efnin voru hald­lögð af lög­reglu og skýrsla rituð.