Karl­maður á þrí­tugs­aldri af sýr­lenskum upp­runa er látinn, eftir að hafa verið stunginn með hníf á Norður­brú í Kaup­manna­höfn í gær­kvöld.

Lög­reglan í Kaup­manna­höfn fékk til­kynningu um á­rásina laust fyrir klukkan ellefu í gær­kvöld á staðar­tíma. Þegar lög­regla kom á vett­vang var maðurinn í bráðri lífs­hættu. Hann var fluttur á spítala, en ekki tókst að koma honum til bjargar.

Þetta kemur fram á danska fréttamiðlinum Politiken.

Rann­sókn stóð yfir að­fara­nótt mið­viku­dags og er svæðið lokað af í dag til frekari rann­sóknar. Þá kemur fram að enginn hefur verið hand­tekinn vegna málsins og lög­regla getur ekki veitt frekari upp­lýsingar að svo stöddu en óskað sé eftir vitnum.

Chenette Westerga­ard yfir­maður rann­sóknar­deildar lög­reglunnar í Kaup­manna­höfn, segir rann­sóknina á byrjunar­stigi og að ekki sé vitað hvort á­rásin tengist á­greiningi milli gengja. Þá vill hún ekki veita nánari upplýsingar um manninn, þar sem fjöl­skylda hans hafi ekki enn fengið upp­lýsingar um and­lát hans.