Aldraður karlmaður lést af sárum sínum á Landspítalanum síðastliðinn föstudag eftir að hann fannst meðvitundarlaus í brennandi húsi við Hlíðarveg í Njarðvík. Þetta staðfestir Sveinbjörn Halldórsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Vísir greinir frá.

Maðurinn fannst meðvitundarlaus í íbúðinni þegar Brunavarnir Suðurnesja komu á svæðið og var hann fluttur til Reykjavíkur í sjúkrabíl.

Brunavörnum Suðurnesja barst tilkynning um eldinn klukkan 15:41 síðastliðinn föstudag og voru fljótir á svæðið. Vel gekk að eiga við eldinn, sem var ekki mikill. Þá er talið að maðurinn hafi kveikt á kerti og hafi mögulega kviknað í út frá því. Málið er í rannsókn.