Karlmaður á fertugsaldri var í kvöld í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 19. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Krafan er gerð í þágu rannsóknar lögreglunnar á manndrápi í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti í gær. Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Töluverður viðbúnaður var í Hafnarstræti í kvöld þegar maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sérsveitarmenn voru í ómerktum bílum í götunni í viðbragðsstöðu.
Hvorki verjandi mannsins né lögregla vildu veita Fréttablaðinu viðtal þegar maðurinn var leiddur út í járnum í kvöld.

Eins og áður hefur verið greint frá var albanskur maður á fertugsaldri skotinn í gærkvöldi. Maðurinn lætur eftir sig ólétta eiginkonu sína og ungt barn. Konan, og barn hans, voru heima þegar hann var skotinn til bana fyrir utan heimili þeirra.

Nágrannar mannsins hafa greint frá því að hafa ekkert heyrt í gærkvöldi og ekki orðið þess vör að nokkuð væri að fyrr en lögreglan mætti á vettvang.
Fréttin hefur verið uppfærð.