Erlendur karlmaður var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrr í mánuðinum með tvær kókaínpakkningar í fórum sínum og fjórar til viðbótar innvortis. Tollgæslan stöðvaði manninn vegna gruns að vera með fíkniefni meðferðis.

„Við skýrslutöku hjá lögreglunni á Suðurnesjum sagðist hann hafa gripið til þessa ráðs til að greiða skuld við ónafngreinda menn erlendis. Kvaðst hann hafa staðið einn að tilrauninni til smygls á fíkniefnum og hefði ætlað að koma þeim í verð hér á landi,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Maðurinn sætir nú tilkynningarskyldu til 4. apríl næstkomandi.

Búðarhnupl og eldur í bílhræi í Njarðvík

Karlmaður í Njarðvík var staðinn að því að stela kremi, tannkremi og sjampói úr verslun. Starfsmenn verslunarinnar stóðu hann að hnuplinu og voru með hann inni á verslunarstjóraskrifstofu þar til lögreglumenn á Suðurnesjum mættu á vettvang. Maðurinn var færður til skýrslutöku á lögreglustöð.

Eldur kom upp í bílhræi sem verið var að tappa bensíni af í Njarðvík. Talið var að neisti frá geymi hefði komist í bensínið. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.