Karlmaður var á dögunum dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna nauðgunar árið 2020. Manninum er einnig gert að greiða brotaþola tvær milljónir króna auk vaxta og sakarkostnað.

Dómur féll í málinu 11. janúar síðastliðinn í Héraðsdómi Suðurlands.

Manninum er gefið að sök að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis með því að stinga fingri í leggöng á meðan hún svaf. Hún hafði látið hann vita að hún vildi þetta ekki og sofnað á ný. Þá hafi maðurinn haft samræði við konuna sem hún gat ekki spornað við sökum svefndrunga.

Hélt áfram þrátt fyrir nei

Eftir að konan vaknaði og hélt maðurinn áfram að hafa samræði við hana og beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung með því að halda henni fastri og hætta ekki þrátt fyrir að hún hafi látið vita að hún vildi þetta ekki, hafi grátið og reynt að ýta honum í burtu.

Konan hafði samband við tvær vinkonur sínar skömmu eftir að hún fór frá manninum og lýsti brotunum fyrir þeim á þann hátt sem hún gaf skýrslu til um. Þær komu báðar fyrir dómi og staðfestu frásögn vinkonu sinnar.

Móðir konunnar kom einnig fyrir dóminn og lýsti því að dóttir hennar hafi ekki verið eins og hún hafi átt að vera þegar hún kom heim morguninn eftir atburðarásina. Líðan dóttur hennar hafi svo farið versnandi uns hún brotnaði niður fáum dögum síðar og sagði henni frá því sem hafði gerst.

Samskiptin hættu í kjölfarið

Maðurinn og konan þekktust og höfðu verið í samskiptum nánast daglega um nokkurt skeið. Eftir atvikið félli samskiptin nánast alveg niður og hittust þau ekkert eftir það.

Síðar sama ár sendi maðurinn konunni Snapchat skilaboð sem hún svaraði með eftirfarandi hætti:

„Hæ, ég skil ekki alveg af hverju þú ert allt í einu að senda mér snöpp aftur? Mér finnst lágmark að þú biðjir mig afsökunar á því sem þú gerðir mér síðast þegar við hittumst. Ég bað þig ítrekað um að hætta en þú hundsaðir það og hélst áfram gegn mínum vilja.“ Maðurinn svaraði konunni með orðinu: „Fyrirgefðu.“

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að framburður konunnar hafi verið í samræmi við þau gögn sem lögð voru fram í málinu. Ásamt því að vera í samræmi við framburð annarra vitna. Framburður brotaþola þótti afar trúverðugur, einlægur og ýkjulaus og engar misfellur í frásögn.

Aftur á móti þóttu atriði í framburði mannsins veikja trúverðugleika hans. Dómurinn taldi því hafið yfir skynsaman vafa að maðurinn hafi gerst sekur um nauðgun.