Klara Ósk Elíasdóttir, tónlistarkona, var aðeins átján ára þegar hún byrjaði í stelpupoppsveitinni NYLON. Hún segir að sem betur fer sé tónlistarbransinn á Íslandi að breytast hægt og rólega og að konur séu nú fleiri en þær voru.

„Þessi bransi er samt karllægur og við þurfum að halda áfram að marsera í rétta átt og þetta gerist ekki án þess að við tökum vel á móti konum í tónlist og gefum þeim tækifæri,“ segir Klara.

„Svo er annað sem er mikilvægt, að við höldum með hver annarri og mér finnst við gera það hérna á Íslandi. Ég upplifi alla vega mikinn stuðning frá samstarfskonum mínum og það er ómetanlegt. Ég vona að ég standi mig jafn vel í að hvetja þær áfram líka,“ bætir hún við.

Mikil umræða hefur verið uppi undanfarið um að konur fái ekki nægilegt pláss í tónlistarbransanum á Íslandi. Litið sé fram hjá þeim þegar bókað er á viðburði og tónlistarhátíðir og að þær fái ekki sama „platform“ og karlar. Spurð hvað sé til ráða segir Klara nauðsynlegt að allir séu meðvitaðir um vandamálið.

„Þegar það er þannig að karlar hafa í meirihluta fengið tækifærin þá þurfum við að passa upp á það að konur fái líka tækifæri, við þurfum að huga að því að skiptingin sé jöfn, bara alveg eins og í öllum öðrum störfum,“ segir Klara.

„Það hafa verið settir á alls konar kynjakvótar til að jafna hlutföll kynja í hinum ýmsu stéttum og það væri vel hægt að gera það í tónlist líka. Ef þú bókar tíu stráka þá bara bókar þú stelpur á móti.“