Mikill meirihluti þeirra sem leitað hafa á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala undanfarin ár eru konur. Af þeim 130 sem þangað leituðu á síðasta ári voru 120 konur. Árið 2019 var heildarfjöldi innkoma 147, þar af voru 129 konur.

Hrönn Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á neyðarmóttökunni, segir að almennt á heimsvísu leiti karlar sér síður aðstoðar fljótlega eftir kynferðisbrot og þurfi að gera átak í því að ná til þeirra. „Því rannsóknir sýna að karlmenn verða fyrir kynferðisofbeldi, einn af hverjum sex karlmönnum verði fyrir kynferðisofbeldi á ævi sinni,“ segir hún.

„Þeir leita síður til okkar og þetta er hluti af miklu stærra vandamáli í samfélagi fólks, að það fylgi því skömm og þöggun að vera karlmaður og verða fyrir kynferðisofbeldi,“ segir Hrönn.

Þorsteinn V. Einarsson kynfræðingur, sem fer fyrir verkefninu Jákvæð karlmennska, segir karla sem verði fyrir kynferðisofbeldi geta upplifað tvöfalda skömm. „Það er ekki bara það að þeir verði fyrir ofbeldi heldur verða þeir líka af völdunum sem karlmennskan færir þeim.“

Þorsteinn segir rannsóknir benda til þess að almennt leiti karlar sér seint eða jafnvel aldrei aðstoðar við nánast hverju sem er. „Þetta á ekki bara við um kynferðisofbeldi heldur hina ýmsu hluti svo sem veikindi eða eymsli,“ segir hann.

Þá segir Þorsteinn ráðandi karlmennskuhugmyndir rótina að hinum ýmsa samfélagsvanda. „Bæði geta þær verið rótin að byrlunum, ofbeldi og yfirlæti en líka vandamálum sem karlar eru að glíma við og því að þeir leiti sér ekki hjálpar, þetta eru í rauninni skaðlegar karlmennskuhugmyndir,“ segir Þorsteinn.