Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá Íþrótta- og tómstundatsviði Reykjavíkur segir að karlaklefar séu fyrir karla.

„Það eru pissuskálar og annað í karlaklefunum sem ekki væri hægt að bjóða konum upp á. Konur eru með splunkunýjan klefa. Þess vegna tel ég fremur langsótt að búningsklefum verði víxlað. Þessi tillaga er ekki komin inn á borðið hjá okkur þannig við höfum ekkert íhugað þennan valkost.“

Fréttablaðið fjallaði í gær um tillögu íbúa miðborgarinnar um að búningsklefum Sundhallarinnar í Reykjavík yrði víxlað í nokkrar vikur. Háværar raddir hafa heyrst um óánægju með nýju kvennaklefana í Sundhöllinni en margir hafa krafist þess að gömlu kvennaklefarnir verði teknir aftur í notkun.

Steinþór segir í samtali við Fréttablaðið að raddir þeirra sem eru ánægðir með breytinguna séu mun fleiri.

„Það eru miklu fleiri ánægðir með nýju klefanna en óánægðir. Ástæðan fyrir því það var byggður nýr kvennaklefi var vegna þess að sundlaugin fékk mikla gagnrýni vegna aðgengis í klefanum. Þeir voru sérstaklega endurbættir með það í huga að auka aðgengi fyrir fatlaða enda var gamli kvennaklefinn á neðri hæð og brattur stigi sem að lá upp á efri hæð og aðgengið ómögulegt.

Nýju kvennaklefarnir í Sundhöll Reykjavíkur hafa verið mikið hitamál.
Anton Brink

Gamli kvennaklefinn er lokaður í augnablikinu vegna endurbóta en framkvæmdum á að ljúka í ár.

„Við stefnum á að klára gamla klefann á þessu ári, það tekur tíma að gera hann upp í sinni upprunalegu mynd."

Hann segir að ekki liggi fyrir hvernig klefinn verði nýttur þegar hann er tilbúinn.

„Það er ekki búið að taka ákvörðun um hvernig hann verður nýttur. Það er mikil aðsókn í laugina og það kemur vel til greina að gamli kvennaklefinn verði nýttur til fulls þegar hann er tilbúinn."

Stendur ekki til að breyta nýja klefanum

Konur með börn hafa sérstaklega kvartað yfir lélegri aðstöðu í nýju búningsklefunum. Aðspurður um hvort standi til að bæta nýja kvennaklefann til að koma til móts við gesti Sundhallarinnar segir Steinþór:

„Ég get sagt þér það að raddir þeir sem eru ánægðir eru miklu miklu fleiri. Þegar ákveðið var að fara í samkeppni um nýja útilaug við Sundhöll Reykjavíkur ásamt viðbyggingu og nýju anddyri var það forgangsmál að bæta aðgengi að kvennaklefanum og það var gert.“

Aukin aðsókn

„Aðsókn í laugina hefur stóraukist eftir endurbæturnar. Sundhöllin var lang minnst sótta sundlaugin í Reykjavík fyrir endurbætur en í dag er hún næst best sótt á eftir Laugardalslauginni.“

Árið 2016 heimsóttu 119.758 laugina en 347.583 árið 2018. Sundhöllin opnaði aftur eftir endurbætur þann 3. desember 2017.

Steinþór bendir jafnframt á umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu um tillögu flokk fólksins um endurgerð kvennaklefanna. Mann­réttinda- og lýð­ræðis­­skrif­­stofa Reykja­víkur­­borgar komst að þeirri niðurstöðu að Sund­höll Reykja­víkur upp­­­fylli kröfur mann­réttinda­­stefnu borgarinnar. Flokkur fólksins hafði óskað eftir því að kannað yrði hvort reglur um jafn­rétti hafi jafn­vel verið brotnar við endur­­­gerð búnings­­klefa Sund­hallarinnar.