Fatahönnuðurinn og tískumógúllinn Karl Lagerfeld er látinn 85 ára að aldri. Samkvæmt franska miðlinum CloserMag lést hann í morgun á bandaríska spítalanum í París. Hann var lagður þar inn í gær vegna veikinda sem hann hafði verið að glíma við undanfarnar vikur.

Lagerfeld hafði verið að glíma við veikindi undanfarna mánuði og missti af tískusýningum Chanel, í fyrsta skipti, á tískuvikunni í París í janúar. Tískuhúsið sagði þá að hann væri aðeins þreyttur.

Lagerfeld var þýskur og var fæddur þann 10. september árið 1933 í Hamburg í Þýskalandi. Hann er einn frægasti fatahönnuður heims. 

Lagerfeld flutti til Parísar sem ungur maður og hóf ferill sinn sem aðstoðarmaður Pierre Balmain árið 1955, þá 22 ára gamall. 1964 hóf hann síðan störf hjá fatamerkinu Chloé og hannaði frá 1965 einnig fyrir Fendi. Árið 1983 gekk hann síðan til liðs við Chanel. Rúmum áratug eftir að Coco Chanel lést. Fyrstu árin sem hann starfaði þar var hann sagður vinna allt að 16 klukkustundir á sólahring og „hafa gaman af því“. Hann starfaði fyrir Chanel í heil 36 ár. 

Ári eftir að hann hóf störf hjá Chanel stofnaði hann einnig sitt eigið fatamerki sem hann hefur hannað fyrir síðan.

Lagerfeld var á síðari árum þekktur fyrir sérstakt útlit sitt og klæddist yfirleitt dökkum jakkafötum, var með hár sitt í tagli og bar dökk sólgleraugu. 

Greint er frá á BBC.