Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, biður lesendur sína afsökunar fyrir að hafa birt falsaðan texta sem hann sagði að væri eftir Birgi Ármansson, þingmann og formann undirbúningsnefndar.

„Mér leiddist og kom í hug hvort ég gæti ekki aukið Birgi leti með því að skrifa fyrir hann drög að nefndaráliti,“ skrifar Karl í færslu á Facebook síðu sinni og tekur fram að textinn í greininni sé hreint ekkert eftir Birgi.

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hefur rannsakað kjörgögn í Norðvesturkjördæmi í um sjö vikur án þess að komast að niðurstöðu og er ljóst að margir eru orðnir óþreyjufullir.

Karl kallar falsfréttina „stílæfingu“ sem hafi verið aðeins of vel heppnuð.

Fréttin er ennþá birt á vefmiðlinum Herðubreið þegar þessi frétt er skrifuð.
Mynd: Skjáskot

„Herðubreið er meinilla við svona leka“

Í fréttinni sem birtist í gær með fyrirsögninni „Gögnum Birgis Ármannssonar lekið“ segir að vefmiðlinum hafi óvænt borist í hendur drög að áliti Birgis.

„Herðubreið er meinilla við svona leka, en í trausti þess að almannahagsmunir gangi framar prívathasgmunum Birgis, verða drögunum nú gerð svolítil skil,“ stendur í fréttinni sem er enn inni á vefmiðlinum þegar þessi frétt er skrifuð.

Engir eftirmálar af hálfu Birgis

Birgir segir enga eftirmála verða af þessu af hans hálfu.

„Nei nei, ef hann hefur samið þetta sjálfur, er gott að hann viðurkenni það,“ segir Birgir í samtali við Fréttablaðið.

„Það voru margir sem sáu þetta, einhverjir tóku mark á þessu en öðrum fannst þetta ótrúverðugt. Þetta var fyrst og fremst skrítin uppákoma.“

Hér fyrir neðan má sjá færslu Karls sem birtist í kvöld á Facebook.