Karl Steingrímsson, eða Kalli í Pelsinum eins og hann er oftast kallaður, hefur sett upp skilti við Vesturgötu í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann bannar alla gangandi umferð.

Tröppur sem liggja frá Vesturgötu niður að Tryggvagötu í Grófina og voru áður færar gangandi vegfarendum eru nú lokaðar með grindverki.

Hann segist í samtali við Fréttablaðið vera í fullum rétti enda sé engin kvöð í deiliskipulagi um að fólki sé heimilt að ganga um svæðið en Karl er eigandi lóðarinnar og rekur Black Pearl lúxusíbúðahótel á henni.

Talað um gönguleið í deiliskipulagi

Í greinargerð fyrir deiliskipulag miðborgarsvæðisins stendur hins vegar á blaðsíðu 6: „Á milli Tryggvagötu 18 og Vesturgötu 8-10A gengur sund með grásteinsveggjum á báðar hliðar, annarsvegar sökklar Vesturgötuhúsanna og hinsvegar bakhlið Tryggvagötu 18. Þetta sund er skemmtileg tenging um tröppur upp á Vesturgötu og er lögð áhersla á að það haldi sér enda er gert ráð fyrir að millisvæði reitsins verði eftirsóknarvert miðbæjarrými með góðum göngutengingum um þennan hluta reitsins.“

„Hugmyndin er að skapa nýtt „borgarrými“ milli bygginganna, en baklóðin er í dag eins og afgangssvæði við Tryggvagötu,“ segir þá einnig í greinargerð skipulagsins. Þá er einnig minnst á „gönguleið“ að miðrýminu að Vesturgötu víða í skipulaginu og má þar finna þessi orð um lóðina:„Kvöð um göngustengsl er sett á lóðina austast.“ Ekki hefur náðst í borgaryfirvöld og því óljóst hvernig þau munu taka á málinu.