Bæjarstjóri Seltjarnarness sakar oddvita minnihlutans um tilraun til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, sem situr einn í meirihluta í bænum. Hún gefur lítið fyrir yfirlýstan samráðsvilja hans.

Karl Pétur Jónsson, oddviti Viðreisnar í bænum, kallaði í gær eftir því að flokkspólitísk átök yrðu lögð til hliðar, nú þegar sveitarfélagið standi frammi fyrir miklum fjárhagslegum áskorunum.

Hann hefur gagnrýnt fjármálastjórn síðustu ára og í gær bar hann stöðu bæjarins saman við ástandið á Akureyri, þar sem bæjarfulltrúar hafa gripið til þess ráðs að mynda samstjórn allra flokka til að reyna að takast á við fordæmalausan hallarekstur.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness og oddviti Sjálfstæðisflokksins, hafnar málflutningi Karls og segir gjörðir ekki fylgja orðum.

„Varðandi aukið samstarf og að vitna í Akureyrarbæ, þá finnst mér það mjög einkennilegt að hann skuli hringja í Sigrúnu Eddu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og biðja hana um að kljúfa meirihlutann og taka upp samstarf við minnihlutann. Það er nú allur sáttahugurinn hjá honum,“ segir Ásgerður, en Sjálfstæðisflokkur er með fjóra fulltrúa af sjö í bæjarstjórn og situr einn í meirihluta.

Sjálf segir Sigrún Edda að Karl Pétur hafi hringt í sig á þriðjudagskvöld og verið að spá í að mynda nýjan meirihluta.

„Sem ég sagði að kæmi ekki til greina, ég væri í meirihluta með mínu fólki og málið er ekki flóknara en það. Ég veit ekki af hverju hann hringdi í mig eða hvort hann var búinn að undirbúa þetta eitthvað frekar,“ segir Sigrún í skriflegu svari til Fréttablaðsins.

Aðspurður um þetta segir Karl minnihlutann hafa hvatt til meira samstarfs, bæði opinberlega og í einkasamtölum við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hann vilji að öðru leyti ekki tjá sig um trúnaðarsamtöl.

„Seltjarnarnesbær glímir við mjög erfiða fjárhagsstöðu og meirihlutinn við þverrandi traust bæjarbúa.“

Hann bætir við að fullkomlega eðlilegt sé að virkt samtal sé í gangi milli fólks úr ólíkum stjórnmálaflokkum.

Í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni sagði Karl að fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar hefði verið vond í nokkur ár og haldi áfram að versna.

„Ég bendi honum á að lesa betur ársreikninga bæjarins, en ársreikningurinn fyrir árið 2019 var jákvæður og þau tilvik þar sem rekstur bæjarfélagsins var neikvæður hafa verið útskýrð. Við höfum ekki viljað skera niður þjónustu og í vissum tilvikum þurftum við að auka hana og það skýrir það tap sem var þarna áður,“ segir Ásgerður.

Þá hafnar hún því að ekkert samráð sé við minnihlutann um gerð fjárhagsáætlana en minnihlutinn hefur gagnrýnt að ekki sé búið að skýra hvernig eigi að stefna að því að koma rekstrinum í jafnvægi.

„Það er búið að leggja fram forsendur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og það eru allir sviðsstjórar að vinna að fjárhagsáætlunargerð. Honum er fullkunnugt um það, sitjandi sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði, en ég kannast ekki við það að hann leggi fram neinar tillögur sjálfur.“