Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, segir meirihluta undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar virðast halla sér að alverstu mögulegu niðurstöðu í talningarmálinu í Norðvesturkjördæmi. Hann sér fyrir að lögreglan gefi út ákæru á hendur meðlimum yfirkjörstjórnarinnar.

„Fyrirliggjandi er mikil vinna frá nefndinni þar sem leitast er við að varpa ljósi á atburðarrásina í Borgarnesi og fagna ég því að sú athugun öll liggi nú fyrir. Frá upphafi var ljóst að það var enginn góður leikur í stöðunni,“ segir Karl Gauti í samtali við Fréttablaðið. Hann kveður niðurstöðuna skipta lýðræði í landinu miklu máli. „Traust á kosningum og kosningaframkvæmd er mikilvægt og ekki má með nokkru móti rýra það.“

Þá segir Karl Gauti að tillögur undirbúningsnefndarinnar eða einstakra nefndarmanna liggi ekki fyrir og að það sé mjög miður.

„Af viðtölum við leiðtoga stjórnmálaflokkanna má þó ráða að stærstu flokkarnir hallast að því að byggja niðurstöðuna á talningu sem fyrir löngu er upplýst að markaðist af fjölmörgum lögbrotum á kosningalögum. Svo alvarlegum reyndar að lögreglan metur þá meðferð saknæma.

Af þeim kostum sem í boði eru tel þá niðurstöðu sem meirihluti nefndarinnar virðist halla sér að vera þá alverstu. Uppkosning í kjördæminu er mun lýðræðislegri niðurstaða,“ segir Karl Gauti.

Eins og fram hefur komið hefur lögreglustjórinn á Vesturlandi gert meðlimum yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi að greiða sektir vegna brota á kosningalöggjöfinni í störfum sínum. Í ljósi þess að þeir hafi ekki gengist við því að hafa brotið af sér og þar með greitt sektirnar kveðst Karl Gauti aðspurður telja einboðið að lögreglustjórinn gefi út ákærur á hendur þeim til að leiða málið til lykta.

Að sögn Karls Gauta leggja kosningalögin mikla áherslu á örugga meðferð atkvæðaseðla, sem þarna hafi orðið alvarlegur misbrestur á.

„Menn virðast ætla að horfa fram hjá því að kjörgögn voru algjörlega óvarin og óinnsigluð í á sjöttu klukkustund og þann tíma var talsverður umgangur fólks í salnum auk einstakra kjörstjórnarmanna, sem dvöldu þar einir. Önnur brot á kosningalögum sem upplýst er um þetta síðdegi eru þá ótalin.

Allt þetta veldur því að ekki er unnt að treysta niðurstöðum þessarar seinni talningar,“ segir Karl Gauti.

„Ég tel að afstaða sumra stjórnmálaforingja ráðist af hræðslu við hugsanlega niðurstöðu uppkosninga og það er afleitt fyrir lýðræðið.“