„Ég óttist að þau gefi út kjörbréf samkvæmt seinni tölunum,“ segir Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, spurður um hvaða niðurstöðu megi vænta hjá Landskjörnefnd sem mun úrskurða síðar í dag um hvaða þingmenn teljist réttkjörnir.
Landskjörnefnd stendur frammi fyrir nokkrum kostum. Einn er að fyrri niðurstaða gildi, það er að þingmannahópurinn haldist eins og hann leit út fyrir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Annar kostur er sá sem Karl Gauti segist óttast, að seinni tölur muni gilda. Þá eru tveir aðrir kostir ónefndir, uppkosning í Norðvesturkjördæmi eða jafnvel að Landskjörnefnd úrskurði að þingkosning verði endurtekin í heild vegna þeirra ágalla sem komið hafa fram í Norðvesturkjördæmi. Þingið mun þó hafa síðasta orðið eftir að kjörbréfanefnd leggur tillögur til samþykktar Alþingis um lokaniðurstöðu.
Karl Gauti segir að lögreglurannsóknin á Vesturlandi sem stendur yfir eftir að hann kærði kosninguna ætti að vera stak í málinu áður en Landskjörnefnd úrskurðar.
„Ég átta mig ekki á þessum flýti,á sama tíma og lögreglurannsókn er í gangi. Auðvitað hefði verið eðlilegra að mínu mati að menn hefðu hinkrað við og séð hvernig í málinu liggur.“
Hann segist þó ekki hafa lagt niður vopnin. Hann muni senda kæru til kjörbréfanefndar Alþingis og vonist til að þá verði lögreglurannsóknin komin eitthvað áleiðis. Það sé afleitt ef síðar komi á daginn að þær ákvarðanir sem verið sé að taka núna séu rangar.
„Þetta er stórkostlega gallað ferli,“ segir Karl Gauti.
Örlög 10 þingmanna eru undir vegna jöfnunarhringekjunnar sem fór af stað eftir endurtalninguna. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, situr í udirbúningskjörnefnd þingsins og segir hún að verkefni nefndarinnar verði vandasamt og krefjandi, enda skipti öllu máli að kjörbréfanefndin rannsaki málið til hlítar.