Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson hafa verið reknir úr Flokki fólksins. Þeir munu að óbreyttu áfram sitja á þingi enda kjörnir fulltrúar. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, staðfestir brottreksturinn í samtali við Fréttablaðið. Hún hafði hvorki rætt við Karl Gauta né Ólaf þegar blaðið náði af henni tali. 

„Þeir hafa bara fengið senda formlega tilkynningu frá mér, fyrir hönd stjórnar, líkt og lög gera ráð fyrir,“ segir Inga. Karl Gauti og Ólafur hafa upplýst um að þeir muni ekki segja af sér. Inga segist ekki vilja tjá sig um hvernig það horfi við flokknum að þeir skuli áfram sitja á þingi. 

„Ég tjái mig ekkert um það. Við Guðmundur Ingi höldum okkar starfi bara ótrauð áfram. Þetta er orðinn slíkur trúnaðarbrestur að það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Þetta verður bara að fara svona. Við hugsum fyrst og síðast um fólkið okkar og Flokk fólksins,“ segir Inga.

Blaðið hefur ekki náð í þingmennina tvo - þrátt fyrir fjölmargar tilraunir.