Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að kæra endurtalningu atkvæða og meðferð á þeim í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

RÚV greinir frá.

Karl Gauti var inni sem jöfnunarþingmaður í Suðvesturkjördæmi þangað til að endurtalning átti sér stað í Norðvesturkjördæmi. Þá datt hann út og Bergþór Ólason kom inn fyrir Miðflokkinn í Norðvesturkjördæmi. Gísli Rafn Ólafsson kom inn fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi.

„Ég er að vinna að kæru til lögreglu þar sem ég fer fram á að hún upplýsi atvik og atburðarás varðandi þessa endurtalningu þarna í Norðvestur,“ segir Karl Gauti í samtali við fréttastofu RÚV.

Karl vill að atburðarrásin verði upplýst og hann telur lögregluna best til þess fallna að upplýsa málið á hlutlausan hátt.

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur einnig ákveðið að kæra kosningar í Norðvesturkjördæmi til kjörbréfanefndar Alþingis. Hann fer fram á svokallaða uppkosningu, hún felur í sér að kosið yrði að nýju í Norðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram í Facebook-færslu hans.

Magnús Davíð segir að kæran verði lögð fram formlega á næstu dögum. Eftir atvikum verði kæran einnig send til lögreglu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar sem sat í kjörbréfanefnd á síðasta kjörtímabili, hefur sagt að ef kosið verði á ný í Norðvesturkjördæmi ýti það undir líkur á að þeir sem greiði atkvæði kjósi strategískt en ekki endilega samkvæmt eigin sannfæringu.

Framkvæmd atkvæðatalningarinnar var ekki samkvæmt lögum, segir Helga Vala í samtali við Fréttablaðið.

Helga Vala segir jafnframt málið svo mikið klúður að það vakni spurningar um hvort kjósa þurfi á öllu landinu aftur.

Fréttin hefur verið uppfærð.