Karl Bretaprins er sagður hafa tekið við þremur milljónum evra í reiðufé frá Sjeik Hamad bin Jassim Bin Jaber al-Thani, fyrrverandi forsætisráðherra Katar og eiganda franska knattspyrnuliðsins Paris Saint-Germain, eða PSG.

Fulltrúar bresku konungsfjölskyldunnar fullyrða að peningarnir hafi runnið beint til góðgerðasamtaka prinsins.

The Guardian greinir frá en það var breska blaðið Sunday Times sem greindi fyrst frá og fullyrðir að féð hafi verið afhent í skjalatösku, ferðatösku og innkaupapokum á nokkrum fundum.

Ráðgjafar Karls eru sagðir hafa tekið við peningunum og síðan hafi banki konungsfjölskyldunnar tekið við þeim en upphæðin samsvarar um 420 milljónum íslenskra króna.

The Guardian segir al-Thani einn ríkasta mann jarðar og að hann hafi verið nefndur „maðurinn sem keypti Lundúnir“ í bresku slúðurpressunni.

Þá greinir Sunday Times jafnframt frá því að hver greiðsla hafi verið lögð inn á reikninga góðgerðarsjóðs Karls. Ekkert bendi til þess að greiðslurnar hafi verið ólöglegar.

Þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að eitthvað ólöglegt hafi átt sér stað þykja fregnirnar vandræðalegar fyrir Karl en lögreglan í Lundúnum og eftirlitsstofnun eru með fjáröflunaraðferðir samtakanna til rannsóknar.