Karl Ágúst Úlfs­son verður í ítar­legu við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins að til­efni þess að hann ætlar sér að kveðja leik­sviðið eftir rúm­lega fjöru­tíu ára feril með sýningunni Fíflið. Hann ætlar að snúa sér að skriftum af fullum þunga og kveðst eiga margar skúffur fullar af hand­ritum.

Karl Ágúst hefur alla tíð verið gagn­rýninn á vald­hafa í gegnum hlut­verk sín í Spaug­stofunni og öðrum verk­efnum. Hann segist oft hafa upp­lifað mót­byr af hálfu yfir­valda vegna þessa og nefnir sér­stak­lega eitt at­vik sem átti sér stað skömmu eftir að hann kom heim frá Banda­ríkjunum úr námi 1994. Karl og þá­verandi kona hans Ás­dís Ol­sen höfðu fengið þá hug­mynd að reyna að selja ís­lenska ríkinu aug­lýsinga­her­ferð til að spyrna gegn skatt­svikum.

„Ég var svo merki­legur með mig á þeim tíma að ég hafði bara beint sam­band við fjár­mála­ráð­herra og bað um fund með honum. Við vorum búin að setja saman mjög snjallan pakka, að okkur fannst, þar sem við ætluðum að vekja at­hygli á því að skatt­svik væru brot gegn öllum þeim sem ættu aðild að heil­brigðis­kerfinu og fé­lags­lega kerfinu og svo fram­vegis.“

Karl og Ás­dís fengu fund með fjár­mála­ráð­herra og full­trúa skattsins þar sem þau fóru í gegnum hug­myndina. Að sögn Karls þótti ráð­herra ekki mikið til hug­myndar þeirra Ás­dísar koma en sagði þó að haft yrði sam­band við þau síðar meir.

„Svo gerist það bara skömmu síðar að ég er settur í alls­herjar skatt­rann­sókn. Skatturinn fer að vé­fengja fram­tölin mín alveg sex eða sjö ár aftur í tímann. Þetta var náttúr­lega gríðar­legt álag vegna þess að ég þurfti að eyða mörgum vikum í að gera grein fyrir öllum kostnaðar­liðum og svo­leiðis. Ég skilaði á endanum held ég greinar­gerð upp á 200 blað­síður og fylgi­gögnum sem vógu örugg­lega 50-60 kíló.“

Að sögn Karls var honum á endanum gjör­sam­lega nóg boðið og hafði því sam­band við fjár­mála­ráð­herra og bað um annan fund en þá var nýr maður sestur í stólinn. Karl gekk á fund hins nýja ráð­herra og tjáði honum grun­semdir sínar, að það hlyti að vera sam­hengi á milli þess að hann kynnti fyrir ráð­herra hug­myndina um her­ferðina gegn skatt­svikum og þess að hann hafi sjálfur verið látinn sæta ítar­legri skatt­rann­sókn.

„Hann sagðist nú hafa enga trú á því en skyldi nú samt spyrjast fyrir hjá sínu fólki og bað mig um að hafa sam­band aftur ef mér þætti þessu ekki linna. Svo fékk ég ein­hverja smá­skít­lega endur­á­lagningu sem varla var orð á gerandi en heyrði ekki meira um þetta mál. Ég held bara hrein­lega að þarna hafi átt að sýna mér fram á að ég skyldi ekki halda að ég væri ein­hver. Ég skyldi ekki halda að ég gæti haft ein­hver á­hrif og skyldi bara sinna mínum fífls­skap án þess að ætla að reyna að hafa bein á­hrif á í­mynd ís­lenska ríkisins út á við eða guð má vita hvernig þeir litu á það.“