Leikarinn og Spaugstofumaðurinn Karl Ágúst Úlfsson leikur sér með texta keðjubréfs þar sem varað er við gervimanninum Magnus Falkerup og tengir hann við prófessor Hannes Hómstein Gissurarson og skýrslu hans um bankahrunið.

„Vinsamlegast láttu allan vinalistann þinn vita: Ekki taka við skýrslu af manni sem segist heita Hannes Hólmsteinn, jafnvel þó að hún sé merkt Háskóla Íslands,“ skrifar Karl Ágúst á Facebook við góðar undirtektir en færslu hans hefur verið deilt rúmlega 200 sinnum.

„Hann er útsmoginn bragðarefur sem á eftir að rukka þig um fleiri fleiri milljónir ef þú tekur við skýrslunni. Þú getur fengið nákvæmlega sömu upplýsingar með því að gerast áskrifandi að Mogganum.“

Bergmál af Falkerup

Texti Karls Ágústs kallast greinilega á við varnaðarorð sem farið hafa sem eldur í sinu um Facebook þar sem eindregið er varað við dularfullum manni frá Skáni í Svíþjóð, Magnus Falkerup, sem sagður er hinn versti netþrjótur.

„Vinsamlegast láttu alla vita í vinalistanum þínum að ekki samþykkja Magnus Falkerup frá Skåne á facebook. Hann er háþróaður tæknimaður tölvusnápur sem hefur aðgang að bankareikningnum þínum ef þú samþykkir vináttu. Ef einhver tengiliður þinn samþykkir það verður þú líka tölvusnápur, svo vertu viss um að allir vinir þínir kunni það. Tittur. Haltu fingrinum á skilaboðin. Neðst í miðjunni verður „áfram“. Ýttu á hnappinn og smelltu síðan á öll nöfnin á listanum þínum og þessi skilaboð verða send til þeirra. Þakka þér og gangi þér vel!“

Þarna þykir að vísu full fast að orði kveðið og ógnin sem af Magnusi þessum stafar heldur ýkt og spaugileg sýn Karls Ágústs á uppþotið fellur í frjóan jarðveg, 437 manns hafa lýst velþóknun sinni með „læki“ og rúmlega 200 manns hafa deilt færslunni áfram.