Karl Ágúst Úlfs­son er í ítar­legu við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins að til­efni þess að hann ætlar sér að kveðja leik­sviðið eftir rúm­lega fjöru­tíu ára feril með sýningunni Fíflið. Hann ætlar að snúa sér að skriftum af fullum þunga og kveðst eiga margar skúffur fullar af hand­ritum.

Karl Ágúst er vita þekktastur fyrir að vera með­limur Spaug­stofunnar á­samt þeim Erni Árna­syni, Pálma Gests­syni, Rand­veri Þor­láks­syni og Sigurði Sigur­jóns­syni. Þeir fé­lagar fram­leiddu alls 472 þætti á þrjá­tíu ára tíma­bili en minnstu munaði að þeir færu ekki í loftið þegar Stöð 2 blés þættina af rétt áður en þeir áttu að skrifa undir samning.

Árið 1986 höfðu þeir Karl Ágúst, Örn Árna og Siggi Sigur­jóns verið með út­varps­þætti á RÚV sem hétu Sama og þegið, þar sem þeir fóru yfir fréttir vikunnar í gaman­sömum stíl. Fé­lagarnir fengu þá hug­mynd að gera sams konar þætti fyrir sjón­varp sem þeir kynntu fyrir Stöð 2 og var hug­myndinni tekið vel fyrst um sinn.

„Síðan erum við mættir upp á Stöð 2 til þess að skrifa undir samning. Samningurinn er til­búinn og það eina sem vantar á hann er nafnið á þættinum. Við vorum með hug­mynd að nafninu Imba­kassinn, það þótti svona ekki nógu já­kvætt og ekki hvetjandi til á­horfs. Þannig að við erum beðnir um að hugsa þetta að­eins betur og gefum okkur korter, tuttugu mínútur til að pæla í þessu. Við sitjum og spjöllum og á sama tíma er dag­skrár­stjórinn kallaður út úr fundar­her­berginu. Hann er í burtu í nokkrar mínútur og þegar hann kemur inn aftur segir hann: „Strákar, það er búið að blása þetta af.““

Við sitjum og spjöllum og á sama tíma er dag­skrár­stjórinn kallaður út úr fundar­her­berginu. Hann er í burtu í nokkrar mínútur og þegar hann kemur inn aftur segir hann: „Strákar, það er búið að blása þetta af.“

Karl Ágúst segir þetta hafa komið þeim í opna skjöldu enda sátu þeir hrein­lega með pennana í höndunum og áttu bara eftir að skrifa undir.

„Þannig að við fórum svona heldur þung­búnir út af þessum fundi og héldum bara á­fram okkar dag­lega basli. Svo leið lík­lega eitt ár og þá vorum við í ein­hverjum stórum peninga­legum vand­ræðum. Þá vorum við farnir að leigja vinnu­hús­næði á­samt Rand­ver og Pálma. Það þurfti að borga leigu og peningar lágu ekkert alltaf á lausu. Á endanum fórum við á fund með Hrafni Gunn­laugs­syni, dag­skrár­stjóra RÚV, og buðum honum þessa sömu hug­mynd. Hann tók við­bragð og sagði: „Þetta er skemmti­legt, ég skal láta ykkur hafa fjóra þætti og ef þeir heppnast vel skulum við skoða hvort það verði fram­hald.“ Við gerðum fjóra þætti á fjórum vikum og svo var ekki hægt að stoppa.“