„Það má segja að það sé komið að því að breyta til,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um núgildandi sóttvarnatakmarkanir og getu Íslands til að takast á við heimsfaraldur.

Um 500 manns hafa greinst með Covid-19 á einni viku og Kári segir ljóst að útbreiðsla veirunnar sé komin í veldisvöxt. Aðspurður hvort það hafi verið mistök af aflétta takmörkunum svarar Kári neitandi.

„Við léttum, herðum, léttum og herðum í býsna mörgum þrepum þangað til að þessi pest er farin. Við verðum ósköp einfaldlega að bregðast við því ástandi sem er hverju sinni,“ segir Kári sem vill sjá grímuskyldu á Íslandi.

„Það hefur gefist vel víða út í heimi að nota sóttvarnagrímur. Það segja mér þeir sem hafa verið að ferðast á Ítalíu og Spáni, að þú farir ekki út í búð án grímu. Ég held að það væri ekki vitlaust að gera eina tilraun þar sem við gerum grímuskyldu þar sem fólk kemur saman innandyra og sjáum hvort það hafi áhrif.“

Kári segir Landspítalann ekki ráða við stöðuna eins og hún er í dag og að hann vilji í framtíðinni sjá sérstaka Farsóttarstofnun.

„Við þurfum að byggja upp farsóttarstofnun sem fylgist með því sem er að gerast út í heimi, greinir gögn og getur kallað saman hóp stofnana, fyrirtækja og einstaklinga til að bregðast við.“