Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, telur glóru­laust að auð­kýfingar eins og hann séu ekki skatt­lagðir hærra hér á landi.

Há­tekju­blað Stundarinnar kom út í dag og í um­fjöllun sem birtist síð­degis á vef Stundarinnar kemur fram að Kári hafi verið tekju­hæsti Kópa­vogs­búinn á síðasta ári og í 13. sæti yfir tekju­hæstu Ís­lendingana.

Hafði Kári 309 milljónir króna í fjár­magns­tekjur á síðasta ári og 410 milljónir í heildar­tekjur. Af því greiddi hann 112 milljónir króna í skatt, ogþar af voru 68 milljónir fjár­magns­tekju­skattur. Hefðu fjár­magns­tekjurnar verið skatt­lagðar eins og launa­tekjur hefði hann aftur á móti greitt rúmar 140 milljónir króna í skatt.

„Ef það reynist rétt að ég hafi haft 300 milljónir króna í fjár­magns­tekjur á síðasta ári, hvernig í ó­sköpunum stendur á að ég er að borga ein­hvern 22 prósent skatt af því frekar en að borga af því eins og eðli­legt væri sem hvern annan tekju­skatt?“

Kári segir að skatt­leggja ætti hann og aðra auð­kýfinga meira en gert er. Ríkið gæti að minnsta kosti haft tölu­vert út úr því að leggja á hann hærri skatt.