Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, er þeirrar skoðunar að skikka ætti alla sem koma til landsins í fimm daga sótt­kví og skiptir þá engu hvort við­komandi hafi verið bólu­settur eða er með vott­orð um fyrri sýkingu. Kári var gestur Kast­ljóssins á RÚV í kvöld. Í þættinum gagnrýndi hann einnig Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og kallaði hann „Brynjar Trump Níelsson“.

Svan­dís Svavars­dóttir kynnti síð­degis nýja reglu­gerð sem tekur gildi á mið­nætti. Reglu­gerðin er unnin upp úr til­lögum Þór­ólfs Guðna­sonar og felur meðal annars í sér að skýrari kröfur verða gerðar um skil­yrði fyrir heima­sótt­kví.

Kári sagðist heilt yfir sáttur við reglu­gerðina og sagði hana eðli­legt við­bragð við dómi héraðs­dóms sem úr­skurðaði um páskana að ó­lög­legt væri að skikka fólk til dvalar á sótt­kvíar­hóteli. Kári gagn­rýndi að vísu niður­stöðu héraðs­dóms og sagði hana raunar vera með ó­líkindum.

„Ég held að það megi ekki draga af því annan lær­dóm en að dómurum í héraðs­dómi geta orðið á mis­tök eins og öðrum. Og líka hitt að maður á ekki að setja nýja reglu­gerð á 1. apríl. Það er ó­heppi­legur dagur fyrir nýja reglu­gerð,“ sagði hann.

Þungar kvaðir

Um nýju reglu­gerðina sagði Kári að nú væri búið að skil­greina hvað þurfi að vera til staðar til að sótt­kví í heima­húsi teljist á­sættan­leg. „Og það eru býsna þungar kvaðir,“ sagði hann en nú verða menn að vera einir í sínum hí­býlum séu þeir í sótt­kví, ella verða aðrir sem deila heimili með við­komandi einnig að fara í sótt­kví.

Kári sagðist alveg eins reikna með því að Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra snúi sér næst að því að skrifa við­bót við þau sótt­varnar­lög sem þegar eru í gildi. Telur hann að reglu­gerðin nái ekki öllum þeim mark­miðum sem fyrri reglu­gerð átti að ná.

Hefði sjálfur gengið lengra

Þegar hann var spurður hvort reglu­gerðin gangi nógu langt og hvort komið verði í veg fyrir frekari smit með henni, sagði Kári að hann hefði gengið lengra ef hann hefði verið fenginn til að skrifa reglu­gerðina.

„Ef ég hefði skrifað þessa reglu­gerð þá hefði ég krafist þess að þeir sem koma til landsins, bólu­settir eða með vott­orð um fyrri sýkingu, yrðu að fara í fimm daga sótt­kví eins og aðrir. Á­stæðan er meðal annars sú að menn koma bólu­settir eða með vott­orð um fyrri sýkingu en sýkjast engu að síður. Ekki nóg með það heldur hafa þeir reynst vera með mikið af veiru í nef­koki og hafa smitað aðra.“

Kári sagði að þetta ætti ekki að koma á ó­vart því gögn frá lyfja­fyrir­tækjunum sýndu að jafn­vel bestu bólu­efnin veiti ekki nema um 90% vörn. „Sem þýðir að 10% þeirra sem hafa verið bólu­settir geta sýkst verði þeir út­settir fyrir veirunni.“

Ruddalegt hjá Brynjari

Kári svar svo spurður út í það hvort hann væri sam­mála Þór­ólfi Guðna­syni sem hefur hvatt fólk til að ferðast ekki til út­landa að nauð­synja­lausu. Kári sagðist vissu­lega taka undir það en skaut léttum skotum að Brynjari Níels­syni, þing­manni Sjálf­stæðis­flokksins, sem fór til Spánar á dögunum.

„Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níels­son hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til út­landa.“ Kári sagði að með þessu hefði Brynjar verið að reka fingurinn framan í sótt­varnar­yfir­völd. Sagðist Kári vera þeirrar skoðunar að um vafa­sama hegðun vera að ræða frá kjörnum full­trúa þjóðarinnar. „Mér finnst það vera rudda­leg að­ferð við að hunsa hags­muni sam­fé­lagsins, hunsa til­raunir sótt­varnar­yfir­valda til að hlúa að heilsu lands­manna. Mér finnst það mjög ljótt.“