Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er þeirrar skoðunar að skikka ætti alla sem koma til landsins í fimm daga sóttkví og skiptir þá engu hvort viðkomandi hafi verið bólusettur eða er með vottorð um fyrri sýkingu. Kári var gestur Kastljóssins á RÚV í kvöld. Í þættinum gagnrýndi hann einnig Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og kallaði hann „Brynjar Trump Níelsson“.
Svandís Svavarsdóttir kynnti síðdegis nýja reglugerð sem tekur gildi á miðnætti. Reglugerðin er unnin upp úr tillögum Þórólfs Guðnasonar og felur meðal annars í sér að skýrari kröfur verða gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví.
Kári sagðist heilt yfir sáttur við reglugerðina og sagði hana eðlilegt viðbragð við dómi héraðsdóms sem úrskurðaði um páskana að ólöglegt væri að skikka fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli. Kári gagnrýndi að vísu niðurstöðu héraðsdóms og sagði hana raunar vera með ólíkindum.
„Ég held að það megi ekki draga af því annan lærdóm en að dómurum í héraðsdómi geta orðið á mistök eins og öðrum. Og líka hitt að maður á ekki að setja nýja reglugerð á 1. apríl. Það er óheppilegur dagur fyrir nýja reglugerð,“ sagði hann.
Þungar kvaðir
Um nýju reglugerðina sagði Kári að nú væri búið að skilgreina hvað þurfi að vera til staðar til að sóttkví í heimahúsi teljist ásættanleg. „Og það eru býsna þungar kvaðir,“ sagði hann en nú verða menn að vera einir í sínum híbýlum séu þeir í sóttkví, ella verða aðrir sem deila heimili með viðkomandi einnig að fara í sóttkví.
Kári sagðist alveg eins reikna með því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra snúi sér næst að því að skrifa viðbót við þau sóttvarnarlög sem þegar eru í gildi. Telur hann að reglugerðin nái ekki öllum þeim markmiðum sem fyrri reglugerð átti að ná.
Hefði sjálfur gengið lengra
Þegar hann var spurður hvort reglugerðin gangi nógu langt og hvort komið verði í veg fyrir frekari smit með henni, sagði Kári að hann hefði gengið lengra ef hann hefði verið fenginn til að skrifa reglugerðina.
„Ef ég hefði skrifað þessa reglugerð þá hefði ég krafist þess að þeir sem koma til landsins, bólusettir eða með vottorð um fyrri sýkingu, yrðu að fara í fimm daga sóttkví eins og aðrir. Ástæðan er meðal annars sú að menn koma bólusettir eða með vottorð um fyrri sýkingu en sýkjast engu að síður. Ekki nóg með það heldur hafa þeir reynst vera með mikið af veiru í nefkoki og hafa smitað aðra.“
Kári sagði að þetta ætti ekki að koma á óvart því gögn frá lyfjafyrirtækjunum sýndu að jafnvel bestu bóluefnin veiti ekki nema um 90% vörn. „Sem þýðir að 10% þeirra sem hafa verið bólusettir geta sýkst verði þeir útsettir fyrir veirunni.“
Ruddalegt hjá Brynjari
Kári svar svo spurður út í það hvort hann væri sammála Þórólfi Guðnasyni sem hefur hvatt fólk til að ferðast ekki til útlanda að nauðsynjalausu. Kári sagðist vissulega taka undir það en skaut léttum skotum að Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem fór til Spánar á dögunum.
„Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níelsson hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til útlanda.“ Kári sagði að með þessu hefði Brynjar verið að reka fingurinn framan í sóttvarnaryfirvöld. Sagðist Kári vera þeirrar skoðunar að um vafasama hegðun vera að ræða frá kjörnum fulltrúa þjóðarinnar. „Mér finnst það vera ruddaleg aðferð við að hunsa hagsmuni samfélagsins, hunsa tilraunir sóttvarnaryfirvalda til að hlúa að heilsu landsmanna. Mér finnst það mjög ljótt.“