Lögregla stefndi að því að skrá framburð Kára Kárasonar, fórnarlambs skotárásar á Blönduósi, á Landspítalanum í gær. Framburður hans gæti varpað ljósi á málsatvik.

Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko, sem varð fyrir haglabyssuskoti þegar árásarmaður braust inn á heimili hans og eiginkonu hans, Evu Hrundar Pétursdóttur iðjuþjálfa, á Blönduósi aðfaranótt sunnudagsins 21. ágúst síðastliðinn er kominn til meðvitundar.

„Ég get staðfest að við stefnum í þessum töluðu orðum að skýrslutöku hans fyrir morgundaginn,“ sagði Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, í gær, en Páley stjórnar rannsókn sakamálsins.

Kári liggur á Landspítalanum eftir að hafa fengið skot í kviðinn. Hann missti meðvitund og var fluttur illa haldinn á Landspítalann eftir árásina. Það mat lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks að heilsa hans sé orðin nógu góð til að hægt sé skrásetja vitnisburð hans segir ákveðna sögu.

Aðstandandi lýsti bata Kára þannig í samtali við Fréttablaðið að hann „virtist framar öllum vonum og kraftaverki líkastur“. Þetta sé huggun harmi gegn.

Þótt stefnt hafi verið að skýrslutökunni í gær mátti samkvæmt upplýsingum blaðsins ekki verða mikil breyting á líðan Kára til að hætt yrði við fyrirhugaða skýrslutöku. Von stendur til að framburður Kára hafi mikið vægi í að púsla saman máls­atvikum.

Fréttablaðið hefur greint frá vísbendingum um að skotmaðurinn hafi fyrst skotið Kára á heimili hans og síðan eiginkonu hans. Sonur þeirra hefur borið við sjálfsvörn þegar hann banaði árásarmanninum með berum höndum. Sonurinn hefur enn stöðu sakbornings.