Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, telur úti­lokað að þau þrjú dauðs­föll sem orðið hafa hér á landi síðustu daga í kjöl­far bólu­setningar gegn CO­VID-19 hafi eitt­hvað með bólu­efnið sjálft að gera.

Rúna Hauks­dóttir, for­stjóri Lyfja­stofnunar, stað­festi í dag að þrír hefðu látist eftir að hafa fengið bólu­efnið í síðustu viku. Um var að ræða aldraða ein­stak­linga með al­var­lega undir­liggjandi sjúk­dóma. Alls höfðu sex­tán til­kynningar um auka­verkanir borist síð­degis í dag, þar af tólf vegna vægra auka­verkana.

Í sam­tali við Frétta­blaðið bendir Kári á að bólu­setning gegn CO­VID-19 verji fólk ekki fyrir öðrum sjúk­dómum en CO­VID-19. Hann bendir á að stór meiri­hluti þeirra sem fékk bólu­efni í fyrstu um­ferð bólu­setningar í liðinni viku hafi verið há­aldraðir ein­staklingar á hjúkrunar­heimilum og þess vegna í hættu á því að deyja á hvaða stundu sem er.

„Þannig að ég held því fram að það sé ekki nokkur mögu­leiki að tengja bólu­setninguna við dauðs­föll þessa fólks. Svona er þetta bara, við endum öll á því að deyja og það er ekkert bólu­efni til sem ver okkur gegn því,“ sagði Kári.

Hann segir að engin á­stæða sé fyrir fólk að halda að sér höndum þegar kemur að bólu­setningu gegn CO­VID-19. Mjög mikilvægt sé að fólk þiggi þessa bólusetningu. „Það er ekki til neitt í heiminum sem hefur jafn mikil á­hrif á al­var­lega sjúk­dóma og með jafn litlar auka­verkanir eins og bólu­setning.“

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði í fréttum RÚV í kvöld að afla þyrfti frekari upp­lýsinga um heilsu­far þeirra þriggja sem létust áður en hægt sé að taka á­kvörðun um fram­hald fyrir­komu­lags bólu­setninga hér á landi.

„Maður þarf líka að muna að þarna var verið að bólu­setja þá veikustu og elstu í sam­fé­laginu, sem eru hrumir og með lang­vinna sjúk­dóma. Það getur ýmis­legt haft á­hrif sem ekki tengist bólu­setningunni þegar um er að ræða veikast fólkið okkar. Þannig að spurningin er hvort þetta tengist bólu­setningunni. Það getur verið erfitt að full­yrða nokkuð um það,“ sagði Þór­ólfur meðal annars.