Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur að bæði sóttkvíum og einangrun gæti farið fækkandi og að ekki þurfi að grípa til þeirra nema í undantekningartilfellum.
Þetta sagði Kári á Rás 1 í morgun en hann var gestur í þættinum Vikulokin. Kári sagði í þættinum að gögn sýni að full ástæða sé til að endurskipuleggja sóttvarnaaðgerðir. Hann tók þó fram að við værum ekki á villigötum varðandi sóttvarnaaðgerðir því enn væru margir að greinast með Delta, sem sé talsvert erfiðara afbrigði en Omíkron.
„Ég held að við höfum verið mjög heppin með hvernig við höfum höndlað þetta fram til dagsins í dag, en þetta er að breytast og gögnin sýna okkur að við höfum fulla ástæðu til þess að endurskipuleggja þetta og ég yrði ekkert hissa á því að innan skamms tíma þá yrði hætt að nota sóttkví og einangrun, eða að minnsta kosti að nota það mjög lítið,“ sagði Kári Stefánsson á Rás 1 í morgun.
Íslensk erfðagreining vinnur nú að því að skima um þúsund manns til að komast að því hversu útbreidd veiran er í samfélaginu og hversu margir hafi smitast án þess að vita það eða vera með nokkur einkenni.