Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, telur að bæði sótt­kvíum og ein­angrun gæti farið fækkandi og að ekki þurfi að grípa til þeirra nema í undan­tekningar­til­fellum.

Þetta sagði Kári á Rás 1 í morgun en hann var gestur í þættinum Viku­lokin. Kári sagði í þættinum að gögn sýni að full á­stæða sé til að endur­skipu­leggja sótt­varna­að­gerðir. Hann tók þó fram að við værum ekki á villi­götum varðandi sótt­varna­að­gerðir því enn væru margir að greinast með Delta, sem sé tals­vert erfiðara af­brigði en Omíkron.

„Ég held að við höfum verið mjög heppin með hvernig við höfum höndlað þetta fram til dagsins í dag, en þetta er að breytast og gögnin sýna okkur að við höfum fulla á­stæðu til þess að endur­skipu­leggja þetta og ég yrði ekkert hissa á því að innan skamms tíma þá yrði hætt að nota sótt­kví og ein­angrun, eða að minnsta kosti að nota það mjög lítið,“ sagði Kári Stefáns­son á Rás 1 í morgun.

Nánar hér á vef RÚV.

Ís­lensk erfða­greining vinnur nú að því að skima um þúsund manns til að komast að því hversu út­breidd veiran er í sam­fé­laginu og hversu margir hafi smitast án þess að vita það eða vera með nokkur ein­kenni.