Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gefur ekki mikið fyrir athugasemdir Persónuverndar sem þeir sendu fyrirtækinu í dag.

„Nú veit ég ekki í hvers konar orðhengilshátt stjórn Persónuverndar hefur lagst en hún fær allavega að svara fyrir það fyrir dómstólum,“ sagði Kári í viðtali í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.

Aðspurður hvort hann ætlaði með málið fyrir dómstóla sagði Kári svo vera í viðtalinu. Hann sagði Persónuvernd hafa sýnt ómældan sóðaskap með því að leggjast í athugun að eigin frumkvæði um málið á meðan Íslensk erfðagreining væri á bólakafi að reyna hjálpa sóttvarnayfirvöldum að takast á við faraldurinn.

„Þetta er ekki beinlínis gjörningur sem gerir það að verkum að það eigi að vera auðvelt fyrir fólk að leggjast á árarnar þegar þörf krefur. Þetta er gjörsamlega út í hött og ekki nokkur möguleiki að halda því fram að þarna hafi Persónuvernd verið að þjóna sínu samfélagi,“ sagði Kári jafnframt í viðtalinu í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni.

Greint var frá því í dag að Persónuvernd hefði séð sig knúnið til að koma á framfæri athugasemdum vegna málsins vegna fullyrðinga Kára undanfarið um ákvörðun Persónuverndar um að fyrirtæki hans, ásamt Landspítala, hafi brotið lög með mótefnamælingum með blóðsýnatöku úr Covid-19 sjúklingum í upphafi faraldursins.

Persónuvernd birti bréf sem sent var til Íslenskrar erfðagreiningar í dag á vefsíðu sinni.

Í bréfinu segir Persónuvernd Kára fara með rangt mál. Persónuvernd hafi aldrei sagt að Íslensk erfðagreining hafi gerst brotlegt við lög við skimun á fólki.

Aðspurður úr í bréf Persónuverndar í viðtali í Reykjavík Síðdegis á Bylgunni í dag hafði Kári þetta að segja um bréfið:

„Þetta bréf bendir til þess að stjórn Persónuverndar sé ennþá ruglaðri en ég hélt.“