Kári Stefánsson skrifar föður sínum, Stefáni Jónssyni fréttamanni, opið bréf sem birtist sem aðsend grein í Fréttablaðinu í dag.
Þrátt fyrir að faðir hans hafi látist fyrir meira en 30 árum metur Kári það svo að meira lífsmark sé með Stefáni Jónssyni en nafna hans útvarpsstjóra og nánustu samstarfsmönnum hans.
Tilefnið er að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri neitaði að láta spila nýja útsetningu íslenska þjóðsöngsins, í anda þeirrar útgáfu bandaríska þjóðsöngsins sem Jimi Hendrix gerði ódauðlega á Woodstock-tónlistarhátíðinni 1969, sem síðasta lag fyrir fréttir í dag, 17. júní.
Útvarpsstjóri vísaði í 3. gr. laga um þjóðsönginn sem kveður á um að ekki skuli flytja hann eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð og neitaði að spila Hendrix-útgáfuna sem Þorsteinn Einarsson gítarleikari og Eyþór Gunnarsson píanóleikari eiga heiðurinn af.
Hér má hlýða á þessa nýju útsetningu þjóðsöngsins og horfa á myndband sem Laufey Elíasdóttir tók og klippti saman af þessu tilefni.