Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Norðmenn hafa farið fram úr sér með fréttaflutningu um að vísindamenn í Noregi hefðu fundið mótefni gegn Covid-19 í sýnum úr þunguðum konum aftur til desember 2019. Það er mánuði áður en kynnt var um fyrstu Covid-19 smitin í Evrópu.

Norska ríkisútvarpið greindi frá málinu fyrr í vikunni.

„Þessi uppgötvun breytir því hvernig saga faraldursins er skoðuð,“ var haft eftir Anne Eskild verkefnastjóri rannsóknarinnar á vef NRK.

Spurður hvaða þýðingu þessi uppgötvun geti haft segir Kári að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu.

„Þeir fundu mótefni gegn kjarnapróteini veirunnar í einni konu í desember 2019 og það þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir Kári og bætir við að ekki hafi verið fundið mótefni gegn því próteini sem yfirleitt sé skoðað. Mótefnið sem þeir hafi mælt geti fundist í öðrum kórónuveirum.

Kári segir jafnframt að erfitt sé að draga ályktanir út frá einum einstakling og segir vísindamenn í Noregi skoðað sýni úr 440 þunguðum konum.

„Þegar heildarfjöldi þeirra sem þú finnur svona í er einn þá segir mannasiðabók vísindamanna að draga drjúpt inn andann, farið heim og gleymið því,“ segir Kári.

Að sögn Kára breytir uppgötvun norsku vísindamannanna engu um sögu faraldursins.