Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra veitast að SÁÁ með því að læka Face­book-færslu Kristínar Á. Páls­dóttur, tals­konu Rótarinnar. 

Kristín birti færslu á Face­book fyrir tveimur dögum þar sem hún talaði um hve hvim­leitt henni fyndist „PR-fjár­öflunar­starf“ heil­brigðis­stofnana vera. Þar hrósaði hún Birgi Jakobs­syni, að­stoðar­manni Svan­dísar og fyrr­verandi land­lækni, fyrir að benda á hve lé­leg vís­bending bið­listar væru um fjár­þörf heil­brigðis­stofnana. 

„Það er með öllu for­dæma­laust að heil­brigðis­ráð­herra veitist á þennan hátt að stofnun sem sinnir sjúkum í landinu. Það er erfitt starf og krefst mikillar fórn­fýsi að hlúa að fíklum í frá­hvörfum sem er aðal­verk­efni Vogs og ekki á það bætandi fyrir starfs­fólk að þurfa á sama tíma að takast á við skít­kast frá æðsta yfir­manni heil­brigðis­mála í landinu,“ skrifaði Kári í Face­book-færslu í kvöld þar sem hann gagn­rýnir ráð­herrann. 

Fjáröflunin SÁÁ nauðsynleg

Hann rekur gagn­rýni Kristínar og bendir á að fjár­öflunar­starf SÁÁ hafi orðið til þess að Vogur gat á síðasta ári sinnt 700 inn­lögnum fleiri en hann hefði getað ef hann hefði einungis reitt sig á fé frá sjúkra­tryggingum. 

„Guði sé lof slá fáir SÁÁ út í fjár­öflun frá al­menningi vegna þess að sumar af þessum 700 inn­lögnum björguðu lífum og flestar juku lífs­gæði sjúk­linga og að­stand­enda,“ skrifar Kári. 

Einnig sagði hann að orð Birgis um bið­lista væru rétt í því sam­hengi sem hann setti þau en röng í sam­henginu við bið­lista Vogs.

„Auð­vitað eru þeir ekki sjálf­krafa á­kall á meira fjár­magn en þeir eru ó­yggjandi sönnun um skort á þjónustu sem getur ýmist átt rætur í lé­legu skipu­lagi eða of litlu fjár­magni. Bið­listinn á Vogi á ekki rætur sínar í lé­legu skipu­lagi vegna þess að á Vogi fer fyrst og fremst fram afeitrun sem tekur sinn tíma og verður ekki flýtt með neinum þeim að­ferðum sem þekkjast í dag. Hver sjúk­lingur þarf tíu daga þótt sumir hverfi á braut eftir skemmri tíma gegn ráðum lækna.“

Um sé að ræða lífsbjargarmál

Hann segir að það geti varla talist skyn­sam­legt af heil­brigðis­ráð­herra að „veitast að fé­laga­sam­tökum sem hafa undir höndum nær alla þá bráða­með­ferð sem stendur til boða við sjúk­dómi sem er ban­vænastur meðal ungs fólks á Ís­landi“. 

Hann segist vera smeykur við að af­staða Svan­dísar markist af ein­hvers konar „mis­skilningi á sósíalískri hug­mynda­fræði um einka­rekstur og ríkis­rekstur“ sem ekkert hafi með um­rætt mál að gera. 

„[...] eða skyn­sam­legri gagn­rýni vin­kvenna hennar í Rótinni á hug­mynda­fræði sumra innan SÁÁ sem hefur heldur ekkert með þetta mál að gera,“ skrifar Kári og lýkur færslu sinni á eftir­farandi orðum: 

„Þetta snýst um að reka kröftuga starf­semi á Vogi sem er afeitrunar sjúkra­hús sem fíklar þurfa að komast inn á þegar þeir vilja afeitrast og eftir það þiggja með­ferð sem gæti átt sér stað á hinum ýmsu stofnunum í sam­fé­laginu. Þetta er lífs­bjargar­mál.“