„Mér fannst fundurinn vera svo­lítið hlægi­legur. Mér fannst þau segja mjög lítið. Mér fannst frum­varpið sem þau lögðu fram dá­lítið gallað.“

Þetta segir Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, um til­lögur ríkis­stjórnarinnar að sótt­vörnum á landa­mærunum sem kynntar voru í gær.

„Í stað þess að veita sótt­varna­lækni meiri heimildir til að­gerða þá raun­veru­lega setur það mjög lítinn kassa utan um það sem hann getur gert. Ég held að sótt­varnar­að­gerðir á seinustu fjór­tán mánuðum hafi gengið mjög vel. Ég veit ekki um annað land sem hefur farið betur út úr þessu heldur en við,“ segir Kári.

Hann segir að hér hafi reynst vel að á­kvörðunar­valdið væri skilið eftir í höndum fag­aðila. „Nú er allt í einu búið með lögum að á­kvarða hvernig á að takast á við þessa hluti og mér finnst það dá­lítið kjána­legt.“

Kári furðar sig á því að al­menni­leg sótt­varnar­lög séu ekki sett til fram­búðar.

„Ég skil heldur ekki hvernig stendur á því að ríkis­stjórn sem er búin að ríkja hér á meðan þessum far­aldri stendur, í þessa fjór­tán mánuði, hvernig stendur á því að hún er ekki í stakk búin til að skrifa sótt­varnar­lög sem geta gilt til fram­búðar og setja þess í stað bráða­birgða­á­kvæði. Ég bara skil það ekki,“ segir Kári.

Heilbrigðisráðherra mælti fyrir umræddu frumvarpi á Alþingi í dag. Í því er mælt fyrir um breytingar á bæði sóttvarnalögum og útlendingalögum. Þeim er ætlað að veita ráðherrum heimild til að skylda ferðamenn frá hááhættusvæðum í sóttvarnahús og eftir atvikum banna útlendingum frá slíkum svæðum að koma til landsins.

Um bráðabrigðaákvæði er að ræða sem ætlað er að gilda til 30. júní næstkomandi. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði gert að lögum í kvöld.

„Ég skil heldur ekki þá ríkis­stjórn sem heldur að hún sé í að­stöðu til að spá fyrir um það hvernig á­standið hér verður þann 1. júlí. Ef eitt­hvað má læra á þessum síðustu fjór­tán mánuðum er það að þessi pest er ó­líkinda­skepna og mjög erfitt að spá fyrir um það hvað gerist.

En að öðru leyti þá finnst manni þessi ríkis­stjórn hafa staðið sig af­skap­lega vel, á meðan þessari pest hefur staðið. Þannig að núna á síðustu metrunum er hún svo­lítið að hrasa.“

Hvers vegna heldurðu að það sé?

„Það eru allir orðnir dá­lítið þreyttir á þessari pest og ekkert ó­lík­legt að þau séu það og ég ætla ekkert að fara að halda því fram að þetta sé út af kosningum sem eru fram­undan. Ég held að menn séu bara orðnir dá­lítið lúnir og þegar menn lýjast þá glatast fókus.“