Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir lík­legt að Ís­lensk erfða­greining komi að skimun við landamærin þegar landið verður opnað fyrir ferða­mönnum þann 15. Júní næst­komandi.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá áðan fór Kári á fund for­sætis­ráð­herra þar sem sam­starf við Ís­lenska erfða­greiningu um skimunina var rætt. Fundurinn stóð yfir í rúman hálf­tíma og vildi Kári lítið ræða við fjöl­miðla­menn um hvað fór fram á fundinum.

Að­spurður hvað rætt hefði verið á fundinum sagði Kári í gríni: „Við ræddum blóma­rækt í Eski­hlíð.“ Þegar frekar var gengið á hann um hvort sam­starf við skimun hefði verið rætt sagði hann: „Jú, jú. Það má vel vera.“ Og þegar hann var spurður hvort lík­legt væri að af sam­starfinu yrði, sagði hann: „Já.“

Kári svaraði þá ekki spurningum blaða­manns um hvort hann hefði heyrt frá Þór­ólfi Guðna­syni sótt­varnar­lækni en Kári sagði í Kast­ljósi í gær að hann gæti lík­lega ekki neitað Þór­ólfi um sam­starf ef hann hringdi í sig. Hann svaraði því heldur ekki hvort hann hefði heyrt eitt­hvað frá Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra en Kári sagði meðal annars í gær að hún hagaði sér eins og tíu ára gömul smá­stelpa. Var það vegna þess að hvorki Svan­dís né heil­brigðis­ráðu­neytið höfðu þakkað Ís­lenskri erfða­greiningu sér­stak­lega fyrir skimanirnar síðustu vikur.


Einnig kom fram í gær að Ís­lensk erfða­greining vildi ekki taka þátt í að skima við landa­mærin ef verk­efnið yrði leitt af heil­brigðis­ráðu­neytinu. Eftir fundinn með Katrínu virðist Kári þó telja lík­legt að fyrir­tækið komi að skimununum og því má velta fyrir sér hvort ein­hver annar en heil­brigðis­ráðu­neytið muni fara með for­ystu og um­sjón verk­efnisins.