Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir lands­mönnum að búa sig undir nýja bylgju kórónu­veirufar­aldursins hér á landi.

Til­efnið eru tíðindi dagsins en þrettán greindust smitaðir í gær og var að­eins einn af þeim í sótt­kví. Fleiri smit hafa ekki greinst á Ís­landi síðan þann 6. ágúst síðast­liðinn þegar sex­tán smit greindust.

Í samtali við Vísi segir Kári ljóst að landsmenn verði að búa sig undir nýja bylgju vegna þessara tíðinda.

„Við verðum að búa okkur undir nýja bylgju eftir eina til tvær vikur. Ég er ekki að segja að líkurnar séu yfir­þyrmandi en nægjan­legar til þess að við eigum að búa okkur undir það,“ hefur frétta­stofan eftir Kára.

Allir starfs­menn Ís­lenskrar erfða­greiningar hafa verið sendir í skimun eftir að upp kom smit í nemanda Há­skólans í Reykja­vík sem heim­sótt hafði hús­næði ÍE. ÍE ætlar sér í kjöl­farið að bjóða upp á skimun fyrir við­komandi há­skóla, Há­skólann í Reykja­vík og Há­skóla Ís­lands.