„Þetta er svipað því og þegar einn af okkar ágætu tónlistargagnrýnendum skrifaði í dagblað dóm um tónleika sem aldrei voru haldnir,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar um nýlega grein fimm heimspekinga um hugsanlega bóluefnarannsókn í samstarfi við lyfjafyrirtækið Pfizer.

Kári fjallar um grein heimspekinganna í Fréttablaðinu í dag. Segir Kári greinina að mestu byggja að mestu á spurningum um rannsókn sem ekki hafi verið búið að setja saman og því ekki verið til.

„Síðan bæta félagarnir fimm gráu ofan á svart með því að efast um vísindalegt gildi rannsóknar sem þeir vissu ekkert um, vegna þess að það var ekkert til að vita um. Það er dagljóst á stúfnum að þeir hafa ekki hundsvit á þeim bólusetningarvanda sem blasir við heiminum í dag,“ skrifar Kári sem svarar síðan athugasemdum heimspekinganna og rekur staðreyndir málsins.

„Heimspekingarnir gefa það í skyn að niðurstöður rannsóknar á bólusetningu á Íslandi væru kannski ekki yfirfæranlegar á aðrar þjóðir, sem er einhvers staðar milli þess að vera hlægileg og grátleg minnimáttarkennd en minnimáttarkennd er það,“ skrifar Kári og bendir einnig á að engar vísindarannsóknir á mönnum eða á gögnum um menn megi fara fram á Íslandi án þess að Vísindasiðanefnd leggi blessun sína yfir þær. „Greinarstúfur fimmmenninganna er að vissu leyti vantraustsyfirlýsing á okkar ágætu Vísindasiðanefnd.“