Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, rær nú öllum árum að því að reyna að tryggja Íslendingum bóluefni og hefur verið í óformlegum samskiptum við framleiðendur á borð við Pfizer og Moderna.

Hann segist hafa efasemdir um að hagsmunum Íslands hafi verið best gætt með því að tryggja sér bóluefni við COVID-19 í samfloti við Evrópusambandið (ESB) og leitar nú leiða til að fá sendingu afhenta á undan skammti ESB.

Kári leggur áherslu á viðræðurnar séu „á eins yfirborðskenndu stigi og hægt er“ og að brugðið geti til beggja vona.

Tilraun til að leysa vanda stjórnvalda

„Þetta er bara tilraun til þess að reyna að ná okkur í bóluefni fyrr en seinna. Hvort það tekst eða ekki er algjörlega óvíst en ég er á bólakafi í að reyna það.“

Ein hugmyndin er að Íslensk erfðagreining standi að rannsókn hérlendis á áhrifum bóluefnis í samstarfi við framleiðenda þess.

„Það er áhugi á að vinna með okkur en það er bara spurning hvort þeir eigi afgangsbóluefni til að setja í þannig rannsókn. Þetta er bara tilraun til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.“

Einungis komin dagsetning fyrir 50 þúsund skammta

Mikið hefur verið rætt um bóluefnaáætlanir íslenskra stjórnvalda síðastliðna daga en nokkur óvissa er talin ríkja um aðgengi Íslendinga að bóluefni. Sem stendur hafa stjórnvöld samið við þrjá lyfjaframleiðendur um afhendingu skammta fyrir 435 þúsund einstaklinga en einungis liggur fyrir afhendingaráætlun vegna bóluefnis Pfizer og BioNtech.

„Í mínum huga er ekki búið að semja um neinn skapaðan hlut fyrr en við vitum hvenær bóluefnið kemur. Það eina sem við vitum núna er að 50 þúsund skammtar af bóluefni Pfizer, sem dugar fyrir 25 þúsund manns, eigi að koma með viku fresti í 13 vikur og síðasti skammturinn komi þá í lok mars.“

Ljóst sé að sá skammtur dugi fyrir innan við tíu prósent þjóðarinnar.

Gert er ráð fyrir því að bólusetningar við COVID-19 hefjist 29. desember hér á landi þegar tíu þúsund skammtar af bóluefni Pfizer og BioNtech koma til landsins.
Fréttablaðið/Getty

Evrópusambandið veðjað á ranga hesta

Allir samningar stjórnvalda hafa verið gerðir fyrir tilstilli þátttöku Íslands í samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fullvissað ríkisstjórnina um að Ísland fái hlutfallslega sama magn bóluefna og aðrar þjóðir í samstarfinu.

„Evrópusambandið virðist hafa hreyft sig á skringilegan máta, veðjað á þá hesta sem hafa kannski ekki staðið sig best, og nú þjáumst við fyrir það,“ segir Kári.

Hann bætir þó við að hann telji ekki að óeðlilega hafi verið staðið að því að tryggja Íslendingum bóluefni og að hann sé „á engan hátt að gagnrýna þá nálgun sem heilbrigðisráðherra [hafi] haft á þetta hingað til.“

„Ég held hins vegar að menn hljóti hægt og hægt að fara að sjá það að við stöndum alveg prýðilega, við erum á þeim stað í áliti umheimsins að okkar hagsmuna er ekki endilega gætt best með því að setja okkur í samflot með einingum eins og Evrópusambandinu þegar kemur að því að semja um hluti eins og bóluefni.“

Helmingslíkur á að þetta gangi upp

Kári segir ómögulegt að segja til um það á þessu stigi hvort eitthvað komi út úr viðræðum hans við lyfjafyrirtækin. Hann vilji þó reyna að nýta tíma sinn og sambönd og hafi til að mynda komið á fundi hans og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með yfirmanni bóluefnadeildar Pfizer síðasta mánudag.

„Ég væri ekki að reyna þetta nema að ég teldi að það væri möguleiki fyrir hendi að þetta gangi upp en ef ég ætti að bregða á það einhverjum líkum þá myndi ég segja að þetta væru ekki meira en helmingslíkur.“

Kári segir að lyfjafyrirtækin séu búin að ráðstafa mjög stórum hluta af þeim skömmtum sem þau geti framleitt. Einnig sé viðkvæmt og flókið að finna leið til þess að semja fram hjá samkomulagi Evrópusambandsins án þess að glata því sem stjórnvöld hafi tryggt fyrir tilstilli þess.

„Ein af leiðunum fram hjá þeirri staðreynd að það er búið að semja sem hluti af ESB heildinni væri  að sannfæra eitthvert af þessum fyrirtækjum um að það væri þess virði að gera rannsókn til að sýna fram á að það sé hægt að uppræta svona sjúkdóm hjá heilli þjóð með bóluefni.“

Það sé hugmynd sem hann hafi minnst á við lyfjafyrirtækin og í eitt skipti hafi fyrirtæki nefnt slíka rannsókn að fyrra bragði.

„Þannig að þetta er hugmynd sem er þeim ekki framandi en þetta er allt saman spurning um það hvort þeir geti fundið skammta af bóluefni til að setja í svona tilraun. Að vissu leyti má segja að þessi bóluefni sem eru komin á markað séu það áhrifarík að það liggur við að það sé ekki þörf á svona tilraun en engu að síður virðist þetta hljóta einhvern hljómgrunn hjá þessum fyrirtækjum.“