Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fyrirtækið muni ekki koma að skimunum á Keflavíkurflugvelli ef verkefnið verður unnið undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Þetta sagði hann í Kastljósi RÚV í kvöld þar sem hrósaði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir góð störf en sagði hana um leið stundum hegða sér eins og „lítil tíu ára stelpa sem lætur ekki neinn segja sér neinn skapaðan hlut.“

Sagði Svandísi hrokafulla

Kári er óánægður með framgang ráðuneytisins og að enginn fulltrúi á vegum fyrirtækisins hafi verið í verkefnastjórn heilbrigðisráðherra um opnun landamæra þann 15. júní.

„Í hroka sínum þá hefur hún ekki treyst sér til að leita til okkar,“ sagði Kári.

„Nú veit ég ekki hvernig stendur á því. Kannski er það vegna þess við erum einkafyrirtæki og einkafyrirtæki eru vond.“

Starfsfólki í Vatnsmýrinni sárnaði

Að hans sögn vill fyrirtækið ekki koma að verkefninu ef það fær ekki eiga þátt í skipulagningu þess. Sárnar honum að ekki hafi verið leitað til þeirra fram að þessu.

Þá sagði hann að starfsfólk fyrirtækisins hafi móðgast þegar Svandís nefndi það ekki í þakkarræðu sinni á síðasta upplýsingafundinum.

Lokað fyrir símanúmer Þórólfs

„Við ætlum ekki að koma að þessari skimun ef hún verður unnin undir stjórn heilbrigðismálaráðuneytisins. Vegna þess að samskiptin við heilbrigðismálaráðuneytið eru þannig að við treystum okkur ekki til þess.“

Þrátt fyrir þetta sagðist Kári eflaust vera til í að ræða aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar ef Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir myndi óska eftir því.

Aðspurður um það hvort hann ætti ekki von á því símtali sagðist Kári hafa lokað fyrir símtöl frá Þórólfi af einmitt þeirri ástæðu.