Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir orð sín í Fréttablaði dagsins misskilning og að í bréfi forsætisráðherra felist fullur stuðningur við Íslenska erfðagreiningu.

Í blaðinu var haft eftir Kára að enginn stuðningur hafi verið í bréfinu sem Katrín Jakobsdóttir sendi honum. Bréf Katrínar var svar við opnu bréfi sem Kári sendi ríkisstjórn Íslands í desember þar sem hann óskaði eftir stuðningi vegna ákvörðunar Persónuverndar.

Persónuvernd sagði fyrirtækið ásamt Landspítala hafa brotið lög með mótefnamælingum með blóðsýnatöku úr Covid-19 sjúklingum.

Kári segir nú að ríkisstjórnin hafi svarað kalli sínu 100 prósent í bréfinu og að þau hafi sent Íslenskri erfðagreiningu nákvæmlega það sem hann hafði beðið um.

„Í þessu bréfi var fullur stuðningur við okkur sem endurspeglar ósköp einfaldlega það góða samstarf sem hefur verið milli okkar og ríkisins í vinnu að sóttvörnum í þessum faraldri. Við erum afskaplega ánægð með stuðning ríkisstjórnar,“ segir Kári í samtali við Fréttablaðið.

Þá er Kári ánægður með yfirlýsingu Katrínar í bréfinu, þess efnis að ríkisstjórnin sé sammála sóttvarnalækni um að Íslensk erfðagreining hafi ekki verið að stunda vísindarannsókn af gamni sínu heldur hafi einungis verið að sinna sóttvörnum í upphafi faraldursins í fyrra með mótefnamælingunum.

Aðspurður út fyrra samtal sitt við Fréttablaðið segist Kári ekki hafa verið búinn að klára lesa bréf Katrínar áður en hann tjáði sig um málið. „Þetta gerist þegar illa gefinn maður les flókinn texta,“ sagði Kári að lokum.