Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, spáði fyrir um það síðast­liðið vor að lífið yrði aftur komið í eðli­legt horf 13. októ­ber. „Það er góður dagur og þá verður vonandi búið að af­létta öllum að­­gerðum,” sagði Kári í við­tali við Sölva Tryggva­son í apríl.

Að til­efni þess að 13. októ­ber er nú runnin upp sló Frétta­blaðið á þráðinn hjá Kára og spurði hann út í á­standið. Að­spurður um hvernig hann metur stöðuna miðað við upp­runa­lega spá sína segir Kári að honum finnist hlutirnir vera í nokkuð eðli­legu horfi.

„Ég er sáttur við hvar við erum stödd í dag,“ segir hann.

Þegar blaða­maður nefnir þær tak­markanir sem eru í gildi svarar Kári kíminn:

„Já, það stafar af þrjósku sótt­varnar­yfir­valda og ekki gleyma því að þrjóskan er göfug.“

Að sögn Kára yrði hlutunum öðru­vísi farið ef hann réði en hann viður­kennir þó að ef til vill væri það kannski ekki besti kosturinn.

„Ef ég réði þessu þá myndi ég af­nema tak­markanir í dag, ég sé engan mun á 500 manns og 1500 manns. Ég myndi hafa þetta á allt, allt annan veg ef ég stjórnaði þessu en við erum svo heppin sem þjóð að ég hef ekki stjórn á þessu.“

Eigum að spara stóru orðin

Nú hafa bæði Danir og Norð­menn af­létt öllum tak­mörkunum innan­lands og Danir stefna á því að af­létta einnig tak­mörkunum á landa­mærum sínum. Erum við Ís­lendingar að verða ein­hvers konar risa­eðlur í þessum málum?

„Það sem mér finnst skipta máli núna er að við eigum að tjá skoðanir okkar og við eigum að leyfa fólki að hafa alls konar skoðanir en við eigum að spara stóru orðin í þessu. Við erum engar risa­eðlur. Hér er Þór­ólfur að fara hægar og taka minni á­hættu heldur en til dæmi ég myndi vilja taka. Ég myndi vilja af­nema allar tak­markanir innan­lands og hefði gert það fyrir margt nokkru. Og ég held að á­stæður til að hafa tak­markanir innan­lands séu af skap­lega litlar, þannig ég lít svo á að 13. októ­ber sé enn heilagur dagur í þessu.“

Að­spurður um hvort hann telji að opnun landa­mæra Dan­merkur muni hafa af­leiðingar í för með sér í bar­áttunni við veiruna segir Kári að kannski mætti „líta á það sem til­raun sem við ættum að fylgjast með.“

Heldurðu að þörf sé að myndast á því að af­létta höftum á landa­mærum Ís­lands?

„Ég held það hljóti að bera að því til­tölu­lega fljót­lega að það verði farið að breyta höftum á landa­mærunum.“

Ef ég réði þessu þá myndi ég af­nema tak­markanir í dag, ég sé engan mun á 500 manns og 1500 manns. Ég myndi hafa þetta á allt, allt annan veg ef ég stjórnaði þessu en við erum svo heppin sem þjóð að ég hef ekki stjórn á þessu.

Verðum að lifa við veiruna

Þór­ólfur Guðnason hefur sagt að veiran gæti enn sótt í sig veðrið, ertu sam­mála því?

„Veiran gæti sótt í sig veðrið, það gæti komið ný veira, það gæti hrunið loft­steinn ofan á þennan hnött og splundrað honum. Það eru alls konar hlutir sem gætu gerst. Í fyrra þegar við héldum að við gætum losað okkur al­gjör­lega við þessa veiru með bólu­setningu, þá var skyn­sam­legt að halda niðri í sér andanum, meðan það var hægt að sjá fyrir endann, nú verðum við hins vegar að lifa við til­vist þessarar veiru, greini­lega tölu­vert lengur heldur en við bjuggumst við, og þá verður maður að að­laga líf sitt að þeirri stað­reynd. Við erum öll búin að gera það í okkar hegðun. Mér fyndist eðli­legt að sótt­varnar­yfir­völd breyttu stefnu sinni í sam­ræmi við á­standið.“

Kári tekur þó fram að ekki megi gleyma þeim sigrum sem unnist hafa og segist á­nægður með störf sótt­varnar­yfir­valda þrátt fyrir að hann sé ekki sam­mála þeim í einu og öllu.

„En það má heldur ekki gleyma því að þetta er búið að ganga of­boðs­lega vel hjá okkur, Þór­ólfur er búinn að gera þetta af miklum myndar­skap og það hefur verið mjög gott fyrir okkar sam­fé­lag að hann hafi gert það, en ég er bara ekki sam­mála honum akkúrat núna,“ segir hann.

Kári Stefánsson í bólusetningu í mars síðastliðnum.
Fréttablaðið/Stefán

Kaupir ekki blaður um ofur­við­kvæmt fólk

Kári tekur undir að þjóðin virðist að miklu leyti vera komin yfir veiruna and­lega en vísar á bug vanga­veltum um hvort að á­fram­haldandi frétta­flutningur af smit­tölum og þróun far­aldursins geti alið á ótta í sam­fé­laginu.

„Á ég að segja þér, ég bara kaupi ekki þetta blaður um ofur­við­kvæmt fólk sem þolir ekki að horfast í augu við sann­leikann og þess vegna eigi að fela sann­leikann svo það titri ekki á beinunum. Það virkar ekki fyrir mig.“

Hann telur að smit­tölur eigi á­fram að vera að­gengi­legar og finnst jafn sjálf­sagt að birta þær upp­lýsingar eins og fréttir af fiski­miðunum.

„Ég held því fram að þeim mun meiri upp­lýsingar sem eru að­gengi­legar þeim mun betra. Hvers vegna ættum við að fela það? Þetta eru tölur sem að endur­spegla það sem er eftir af þessari pest í okkar landi og mér finnst það alveg sjálf­sagt, ná­kvæm­lega eins og fréttir af þorsk­aflanum og svo fram­vegis. Þetta ætti að vera að­gengi­legt, það er enginn á­stæða til þess að fela það,“ segir Kári.

Hörð lexía fyrir okkur öll

Al­mennt séð metur Kári stöðuna hér á landi sem „býsna góða“ og þótt veiran sé enn á meðal vor þá stafi okkur ekki mikil ógn af henni eins og stendur. Að­spurður um hvort við munum ein­hvern tíma geta sagt skilið við veiruna að fullu segir Kári það vera við­búið að heims­byggðin muni þurfa að halda á­fram að pæla í far­sóttum um ó­fyrir­séðan tíma.

„Ég held að við munum koma til að halda á­fram að pæla í far­sóttum miklu meira en áður langt fram í fram­tíðina. Vegna þess að við sáum í þessu hversu far­sóttir hegða sér allt öðru­vísi núna heldur en þær gerðu fyrir okkrum árum. Það er að segja, þessi miklu sam­skipti, þessi miklu ferða­lög, að þau gera það að verkum að svona breiðist út með leiftur­hraða.“

Við höfum lært helling á þessari bar­áttu. Þetta hlýtur að vera mikill þekkingar­brunnur fyrir mann í þinni stöðu?

„Þetta hefur verið býsna hörð lexía fyrir okkur öll, við höfum lært fullt. Það sem að var vissu­lega spennandi fyrir okkur sem vinnum hér í Vatns­mýrinni er að allt í einu þá gátum við tekið þær að­ferðir sem við erum búin að vera að vinna með á síðustu 25 árum, gátum tekið þær og beitt þeim við að hjálpa til við að hemja far­aldur í landinu. Í stað þess að vinna við að gera upp­götvanir sem eru fyrst og fremst að auka þekkingu en miklu síðar að verða gagn­legar, allt í einu varð þessi vinna okkar gagn­leg frá degi til dags. Það var ekki þessi langa bið eftir því að það yrði praktískt. Okkur fannst það gaman og spennandi og það var miklu betra að fá að vera að vinna í þessu heldur en bara að sitja og lifa lífinu og bíða. Að vera allt í einu rele­vant í dag­legu lífi á Ís­landi, það var mjög gaman,“ segir Kári.

Þetta hlýtur að hafa skipt sköpum fyrir starf­semi og rann­sóknir Íslenskrar erfðagreiningar?

„Þetta skipti kannski ekki sköpum fyrir okkar rann­sóknir í sjálfu sér en það skipti sköpum fyrir þá ein­stak­linga sem voru að vinna við þetta. Á tíma­bili þá unnu menn hér miklu meira en myrkranna á milli, sjö daga vikunnar við þetta, sí­fellt að pæla í þessu, reyna að búa til skilning á þessu og svo fram­vegis. Það var voða gott fyrir vísinda­mennina hér sem ein­stak­linga að upp­lifa það að þessi til­tölu­lega ab­strakt fim­leikar sem þeir hafa staðið í hér undan­farin ár að þeir skipta máli í dag­legu lífi. Skipta máli við til­raunir til þess að hafa á­hrif á út­breiðslu mjög al­var­legrar far­sóttar í landinu, þannig að þetta var erfitt, þetta var hörð lexía en þetta var að vissu leyti gaman.“

Kári segir okkur geta dregið alls konar lær­dóm af veirunni, bæði fyrir vísindin og sam­fé­lagið í heild.

„Fyrir okkur þá voru þetta aðal­at­riðin en fyrir sam­fé­lagið al­mennt þá held ég að það sem mestu mái skiptir er að þegar á reynir þá getum við snúið bökum saman, þá getum við tekist á við hluti sam­eigin­lega og við sem þjóð á svona ögur­stundu erum hlýðin, öguð. Þess á milli erum við náttúr­lega mestu skanda­listar í heimi,“ segir hann að lokum.