Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, mætti á fund til Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra í stjórnar­ráðið í morgun. Hann vildi ekkert segja um hvað hefði verið rætt á fundinum eða hvort komi til greina að Ís­lensk erfða­greining skimi lengur en til næsta mánu­dags. Hann hefur þó áður sagt að það komi ekki til greina.

Kári þáði ekki boð Katrínar í gær um að ræða við hana á fundi um landa­mæra­skimunina en Ís­lensk erfða­greining til­kynnti það á mánu­daginn síðasta að fyrir­tækið ætlaði að hætta allri þátt­töku í verk­efninu eftir næsta mánu­dag. Hann sagðist þá ekki sjá til­gang í því að mæta í stjórnar­ráðið til Katrínar en sagði að hún væri vel­komin til sín í há­degis­mat ef hún vildi. Eitt­hvað hefur breyst í milli­tíðinni því Kári var mættur á fund for­sætis­ráð­herrans klukkan um tuttugu mínútur í ellefu í dag. Kári kom út úr stjórnarráðinu rúmum hálftíma síðar.

Fundurinn stóð í rúman hálftíma.
Fréttablaðið/Valli

Frétta­blaðið innti Kára eftir svörum um hvað hafi verið rætt á fundinum en hann vildi ekkert segja. Hann vildi heldur ekki svara því hvort það kæmi til greina að Ís­lensk erfða­greining héldi á­fram að skima við landa­mærin lengur en til næsta mánu­dags.

Í gær lýsti Kári yfir furðu sinni á því hvernig ríkis­stjórnin hefði háttað sam­skiptum sínum við Ís­lenska erfða­greiningu frá því að fyrir­tækið hóf að skima fyrir veirunni í far­aldrinum. „Mér finnst stjórn­völd hafa hagað sér eins og hálf­­­gerðir kjánar í þessu. Það er að segja: ég skil ekki að þessi ríkis­­stjórn vilji taka þá á­hættu sem felst í því að hálf­­partinn hrekja okkur úr þessari vinnu. Ég bara skil það ekki,“ sagði hann.