Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, skýtur föstum skotum að Jóni Atla Bene­dikts­syni, rektor Há­skóla Ís­lands, og há­skóla­ráði í að­sendri grein sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Í greininni gagn­rýnir Kári þau um­mæli rektors að siða­nefnd há­skólans beri ekki að rann­saka meintan rit­stuld Ás­geirs Jóns­sonar, seðla­banka­stjóra, sem greint var frá á síðasta ári. Ás­geir er auk þess að gegna stöðu seðla­banka­stjóra með stöðu við hag­fræði­deild Há­skóla Ís­lands þaðan sem hann er í launa­lausu leyfi en Kári segir há­skólanum vera „tölu­verður vegur“ að því að einn af kennurum skólans sé æðsti em­bættis­maður efna­hags­mála í landinu.

„Ás­geir gaf út bók á síðasta ári þar sem hann setur fram, sem sínar, rök­semdir til stuðnings kenningar nokkurrar um á­hrif efna­hags­mála á sögu land­náms. Berg­sveinn Birgis­son, rit­höfundur og mikill sér­fræðingur um land­nám, benti á að hann hefði birt sömu rök­semdir í bók sinni sem kom út átta árum áður og það hefði verið við hæfi og í sam­ræmi við hefð og siða­reglur að Ás­geir vitnaði í hana.

Ás­geir bar af sér á­sakanir Berg­sveins með því að hann hefði ekki lesið bók hans, Leitin að svarta víkingnum, við skrif á bók sinni, Eyjan hans Ingólfs. Kári segir þær skýringar ekki halda vatni í ljósi þess að Ás­geir sé fræði­maður.

„Þetta þykir ekki hald­bær skýring vegna þess að áður en þú setur fram kenningar á fræða­sviði sem þú kallar þínar eigin er ætlast til þess að þú þekkir allar þær kenningar sem í gangi eru um sama efni.

Nú getur öllum orðið á í messunni og Ás­geir hefur sýnt okkur upp á síð­kastið að hann sem seðla­banka­stjóri er engin undan­tekning í því efni og hvers vegna ætti hann þá að vera undan­tekning sem fræði­maður? Ef bók Berg­sveins fór fram hjá honum og hann er sam­mála því að kenningar þeirra séu þær sömu eða keim­líkar átti hann ein­fald­lega að biðjast af­sökunar sem hann gerði ekki.“

Bergsveinn Birgisson (t.h.) sakaði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra (t.v.), um að hafa stolið hugmyndum frá sér við ritun bókarinnar Eyjan hans Ingólfs.
Mynd/Samsett

Í kjöl­far þess að Berg­sveinn bar upp á­sakanirnar á hendur Ás­geiri kærði hann hinn síðar­nefnda til siða­nefndar Há­skóla Ís­lands sem féllst á að taka málið fyrir. Jón Atli Bene­dikts­son, rektor HÍ, taldi hins vegar málið vera utan lög­sögu nefndarinnar í ljósi þess að Ás­geir væri í ó­launuðu leyfi frá há­skólanum og í kjöl­far þess sagði nefndin af sér í byrjun febrúar­. Að sögn Kára var um stór mis­tök hjá rektor að ræða.

„Þetta voru dapur­leg mis­tök af hálfu Jóns Atla sem há­skóla­ráði ber að leið­rétta. Meðan Ás­geir er hand­hafi stöðu við Há­skólann hlýtur skólinn að gera þá kröfu til hans að við fræði­störf sín þá haldi hann sig innan þeirra marka sem eru settar af siða­reglum skólans og hefðum fræða­sam­fé­lagins,“ skrifar Kári.

„Ef úr­skurður rektors fær að standa býður hann upp á þann mögu­leika að fræði­menn há­skólans geti skipu­lagt vinnu sína þannig að þeir taki sér launa­laust leyfi þegar þeir ætla sér að stunda ein­hvern fræði­legan ó­sóma og komið síðan til baka úr leyfinu með hreinan skjöld af því enginn hafði heimild til þess að kanna hvort á­sakanir um ó­sómann væru sannar eða lognar.“

Að lokum í­trekar Kári að hann sé með skrifum sínum ekki að taka af­stöðu til þess hvort að seðla­banka­stjóri hafi í raun framið rit­stuld á Berg­sveini heldur sé hann að­eins að benda á mis­tök rektors sem há­skóla­ráð beri á­byrgð á.

„Ef þið leið­réttið þetta ekki er hætta á því að há­skólinn tapi trausti fólksins í landinu og það fari að taka galsa­fengt ljóð Dags Sigurðar­sonar al­var­lega:

Raun vísinda: stofnun há­skólans,“ segir í niður­lagi greinarinnar sem lesa má í heild sinni á vef Fréttablaðsins.